Erlent

Bandarískur lögreglumaður ættleiddi misnotuð fósturbörn

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglumaðurinn Jack Mook.
Lögreglumaðurinn Jack Mook.
Bandaríski lögreglumaðurinn Jack Mook ættleiddi í síðasta mánuði tvo bræður sem hann hafði kynnst í sjálfboðaliðastarfi í Pittsburgh og verið beittir ofbeldi af fyrri fósturforeldrum sínum.

Sjónvarpsstöðin CBS sagði sögu Mook í innslagi þar sem hann segir frá því hvernig hann hafi kynnst bræðrunum Jessee and Josh Lyle í sjálfboðaliðastarfi sínu sem hnefaleikakennari í Steel City Boxing líkamsræktarstöðinni. „Flestir krakkanna sem koma í þessa líkamsræktarstöð eru af götunni. Margir hafa fæðst inn í fátækt.“

Hinn einstæði Mook sagist hafa líkað vel við hina 11 og 15 ára bræður en dag einn fyrir nokkrum árum hættu drengirnir skyndilega að sækja hnefaleikatímana. Mook segist strax hafa gert sér grein fyrir því að eitthvað amaði að. Hann fór á stjá og hafði upp á eldri bróðurnum. „Hann leit skelfilega út – með bauga undir augunum – tólf ára gamall.“

Mook komst í kjölfarið að því að bræðurnir bjuggu á fósturheimili, hjá fósturforeldrum sem hafi misnotað drengina og vanrækt. „Lífsskilyrði þeirra voru verri en nokkur annar krakki hefur þurft að búa við í borginni Pittsburgh. Ég fékk nóg af þessu.“

Mook segist hafa tekið hlutina í eigin hendur, innheimt nokkra greiða og fengið yfirvöld til að koma bræðrunum fyrir á nýju fósturheimili – heimili Mooks sjálfs. „Ég hef aldrei sofið betur en þá nótt,“ sagði Josh.

Mook hefur nú verið fósturfaðir bræðranna í tvö ár og segist enn vera að aðlagast nýju lífi. „Heimavinnan ein er grimm,“ segir Mook glaður í bragði og bætir við að hann sé ánægður með þær breytingar sem drengirnir hafi haft á líf sitt. „Já, þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið í mínu lífi.“

Innslag CBS má sjá að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×