Erlent

Bandaríkin sögð hafa njósnað um forseta Frakklands

Birgir Olgeirsson skrifar
Njósnirnar náðu yfir sex ára tímabil og beindust gegn þremur forsetum á því tímabili, þeim Jacques Chirac, Nicolas Sarkozy og Francois Hollande.
Njósnirnar náðu yfir sex ára tímabil og beindust gegn þremur forsetum á því tímabili, þeim Jacques Chirac, Nicolas Sarkozy og Francois Hollande. Vísir/Getty
Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, njósnaði um þrjá forseta Frakklands á árunum 2006 til 2012. Þetta kemur fram í gögnum sem birtast á síðu samtakanna WikiLeaks en um er að ræða þá Jacques Chirac, Nicolas Sarkozy og Francois Hollande.

Bandaríkjastjórn hefur neitað að tjá sig um þessi gögn sem WikiLeaks hefur undir höndum en Francois Hollande, núverandi forseti Frakklands, hefur boðað til fundar með varnarmálaráði Frakklands á miðvikudag, að því er fram kemur á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

NSA hefur áður verið sakað um að njósna um Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Skjölin sem WikiLeaks birti voru nefnd „Espionnage Elysee“ sem er vísun í forsetahöll Frakklands. Áttu njósnir bandarískra yfirvalda að ná til þriggja forseta og einnig ráðherra og sendiherra Frakka í Bandaríkjunum.

Í einu skjalinu, sem er frá árinu 2012, ræðir Hollande um mögulega útgöngu Grikkja frá evrusvæðinu. Í öðru skjali, frá árinu 2011, er haldið fram að Sarkozy hafi verið staðráðinn í að taka upp friðarviðræður á milli Ísrael og Palestínu með mögulegri aðkomu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×