Sport

Bandaríkin enn langsigursælasta Ólympíuþjóðin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Phelps er sigursælasti íþróttamaður allra tíma á Ólympíuleikum.
Michael Phelps er sigursælasti íþróttamaður allra tíma á Ólympíuleikum. Vísir/Getty
Bandaríkin unnu flest verðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó sem lauk í gær. Er þetta í sautjánda skipti alls sem að Bandaríkin vinna til flestra gullverðlauna en í þetta sinn urðu þau 43 talsins.

Alls fékk Bandaríkin 116 verðlaun sem er það mesta sem að þjóðin hefur unnið síðan að leikarnir fóru fram á heimavelli, í Los Angeles, árið 1984. Þá mættu Sovétmenn ekki til leiks og Bandaríkjamenn sópuðu til sín 174 verðlaunapeningum.

Bandaríkin bera af í bæði frjálsum íþróttum og sundi. Í fyrri greininni vann Bandaríkin til 31 verðalauna, þar af þrettán gullverðlauna. Jamaíka kom næst með sex gullverðlaun. Bandaríkin unnu svo sextán gullverðlaun í sundlauginni, 33 verðlaun alls af þeim 104 sem í boði voru.

Með þessu eiga Bandaríkin nú meira en eitt þúsund gullverðlaun á Ólympíuleikum frá upphafi en Sovétríkin sálugu koma næst á listanum með 395 gullverðlaun. Bretland er í þriðja sæti með 261 gullverðlaun. Yfirburðirnir eru ótrúlegir.

Það kemur ekki á óvart að Bandaríkin eiga sigursælustu íþróttamennina en Michael Phelps (6 gull, 1 silfur) vann flest verðlaun allra í Ríó en á eftir honum komu Katie Ledecky (5 gull, 1 silfur) og Simone Biles (5 gull, 1 brons).

Ísland er enn að bíða eftir sínum fyrstu gullverðlaunum á Ólympíuleikum en þrjár þjóðir unnu sitt fyrsta gull í Ríó. Fiji í sjö manna rúgbý, Jórdanía í taekwondo og Kósóvó í júdó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×