Fótbolti

Bale: Zidane gaf okkur trú

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Bale skaut Real í úrslit.
Gareth Bale skaut Real í úrslit. vísir/getty
Real Madrid leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu í fótbolta en liðið hafði betur, 1-0, í seinni leiknum gegn Manchester City á miðvikudagskvöldið. Það var eina markið sem var skorað í 180 mínútna rimmu liðanna.

Sigurinn vannst nákvæmlega fjórum mánuðum eftir að Zidane tók við af Rafael Benítez sem þjálfari spænska stórliðsins en Benítez er nú að reyna að halda Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.

Walesverjinn er meira en lítið ánægður með innkomu Zidane en samkvæmt fréttum í spænskum og enskum miðlum var hann mjög óánægður þegar Benítez var látinn fara og íhugaði að fara aftur til Englands í sumar.

„Zidane hefur gefið okkur trú og frelsi til að fara út á völl og leyfa okkur að gera það sem við getum og njóta þess,“ segir Bale í viðtali á heimasíðu UEFA. „Þegar leikmenn fá að spila svona sérðu það besta frá þeim.“

Bale skoraði eina mark leiksins og hann viðurkennir sjálfur að hann var heppinn að boltinn fór inn í markið þar sem hann ætlaði ekki að skjóta.

„Ég ætlaði að gefa fyrir en það skiptir augljóslega engu máli hvernig boltinn fer inn í markið. Við erum ánægðir og það sem skiptir mestu máli er að við erum komnir í úrslitaleikinn,“ segir Gareth Bale.

Real mætir samborgurum sínum í Atlético Madrid í Mílanó í lok maí en það verður endurtekning á úrslitaleiknum 2014 sem Real Madrid vann eftir framlengingu.


Tengdar fréttir

Ronaldo: Við vorum betri

Cristiano Ronaldo er enn á ný kominn í úrslit Meistaradeildarinnar og var að vonum himinlifandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×