Innlent

Bærinn krefst þess að fá kaupsamning Stálskipa

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Guðrún Ágústu Guðmundsdóttur bæjarstjóranum var falið að virkja forkaupsrétt Hafnarfjarðar á Þór Hf-4.
Guðrún Ágústu Guðmundsdóttur bæjarstjóranum var falið að virkja forkaupsrétt Hafnarfjarðar á Þór Hf-4.
Hafnarfjarðarbær hefur krafið Stálskip um afrit af kaupsamningi vegna sölu fyrirtækisins á togaranum Þór Hf-4.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eru ósátt við söluna á Þór þar sem aflaheimildir sem fylgja skipinu hurfu með því á brott úr bænum. Hafnfirðingar fengu ekki að vita af viðskiptunum með Þór fyrr en þau voru um garð gengin en telja að samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eigi bærinn forkaupsrétt að skipinu. Það hafi nú verið staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Vestmannaeyjabæjar gegn félaginu Q44 og Síldarvinnslunni þar sem fyrrnefnda félagið seldi því síðarnefnda togara sem gerður hefur verið út frá Eyjum.

„Er hér með skorað á Stálskip að láta Hafnarfjarðarkaupstað nú þegar, eða í síðasta lagi innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þessa, í té afrit af kaupsamningum um skipið Þór Hf-4 og um þær aflaheimildir sem framseldar voru. Liggur nú þegar fyrir staðfesting Fiskistofu á því að ekki hafi verið unnið í samræmi við lagafyrirmæli varðandi framsal aflaheimilda,“ segir í bréfi Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur bæjarstjóra til Stálskipa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×