Innlent

Bæjarstjóri Hveragerðis: Ólíðandi að búa við manngerða skjálfta

Aldís Hafsteinsdóttir segir bæjarbúa reiða.
Aldís Hafsteinsdóttir segir bæjarbúa reiða.
Íbúar Hveragerðis hafa fengið sig fullsadda af manngerðum skjálftum Orkuveitu Reykjavíkur segir bæjarstjóri. Tveir snarpir jarðskjálftar urður við Hellisheiðarvirkjun í morgun og fundust þeir allvíða á suðvesturlandi.

Jarðskjálfti upp á 3,8 á richter skók jörðu rétt eftir klukkan níu í morgun en upptök hans voru við Hellisheiðarvirkjun. Þá mældist annar jarðskjálfti upp á 3,7 á richter um klukkan korter í tíu í morgun og voru upptök hans um tvo kílómetra vestur af Hveragerði.

Skjálfarnir fundust víða, meðal annars í Hveragerði og á höfuðborgarsvæðinu. Þá má rekja til starfssemi Orkuveitunnar á Hengilssvæðinu en fjöldi skjálfta hefur mælst á svæðinu að undanförnu. Aldís Hafsteinsdóttir er bæjarstjóri í Hveragerði.

„Fólk er orðið mjög  langþreytt. Fólk er bara virkilega reitt yfir þessu. þolinmæðin er á þrotum en það er ólíðandi að búa við manngerða jarðskjálfta,“ segir Aldís.

Bæjarstjórn Hveragerðis hefur krafist aðgerða að hálfu Orkuveitunnar og segir Aldís skjálftahrinum verði að linna.

„Fólk er mjög reitt og þessir skjálftar í morgun voru engin smásmíði. Þarna hefur einn skjálftinn orðið mjög nálægt bænum og mjög snarpur og fannst greinilega,“ segir Aldís en bæjarbúum er nokkuð brugðið eftir skjálftana í morgun.

„Ég trúi því ekkki að þetta sé eitthvað  sem orkuveitan vill láta kenna sig við. Reykvíkingar myndu ekki láta bjóða sér þetta,“ segir Aldís að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×