Báðir erlendu ferðamennirnir sem fluttir voru á slysadeild Landspítala eftir umferðarslys austan við Hvolsvöll í gær hafa verið útskrifaðir af gjörgæslu. Annar þeirra var útskrifaður í gær en hinn nú í dag.
Meira er ekki vitað um ástand þeirra að svo stöddu. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti fólkið á spítalann í gær eftir slysið, sem varð til þess að Suðurlandsvegi var lokað um tíma.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í gær að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann valt.
