Erlent

Á­fram­hald á kjarn­orku­við­ræðum Banda­ríkjanna og Írans

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Utanríkisráðherrar ríkjanna funduðu í sex klukkustundir í dag.
Utanríkisráðherrar ríkjanna funduðu í sex klukkustundir í dag. Vísir/AFP
Sex klukkustunda viðræður áttu sér stað í dag á milli Bandaríkjanna og Írans vegna kjarnorkuáætlunar stjórnvalda í Tehran. Mánuður er til stefnu í viðræðunum, samkvæmt markmiði sem ríkin settu sér.

Viðræðurnar í dag snérust um hversu hratt viðskiptaþvingunum gegn Íran verði aflétt og hversu mikinn aðgang stjórnvöld þar í landi þurfa að veita eftirlitsmönnum að herstöðvum sínum, hætti þeir kjarnorkuáætlunum sínum.

AP fréttastofan hefur eftir embættismönnum að viðræðurnar í dag hafi verið þær árangursríkustu síðan að rammi var settur um samningaviðræðurnar í apríl síðastliðnum.

Óljóst er hins vegar hversu vel gekk raunverulega á fundinum  og hvort samningar verði í höfn fyrir 30. júní, sem er viðmiðunardagsetningin.

„Við munum reyna,“ sagði Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, að loknum fundinum aðspurður hvort samkomulag yrði í höfn fyrir þann tíma.

Embættismenn ríkjanna tveggja munu hittast aftur á fundi í Vínarborg í næstu viku til að greiða úr fleiri málum í tengslum við viðræðurnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×