Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að búast megi við að þessar nýju reglur verði til þess að sala Vínbúðanna minnki um 1 til 2 prósent og tekjur ríkisins af áfengisgjaldi dragist saman um 200 milljónir en að búist sé við að tekjur af aukinni sölu í komuversluninni muni vega upp á móti.
Eins og staðan er í dag þá þurfa þeir sem fara í gegnum fríhöfnina að fara eina af fimm mismunandi leiðum til þess að fullnýta þann áfengiskvóta sem hverjum farþega er sjálfvirkt úthlutaður við komuna til landsins. Þessar fimm mismunandi leiðir eru fengnar út fá lögum um tollfrjáls kaup á áfengi. Frumvarp fjármálarráðherra felur í sér að miðað er við einingar í staðinn, nánar tiltekið að hver ferðamaður megi versla sex einingar.

„ÁTVR telur frumvarpið ekki nægilega ígrundað og gerir athugasemdir við að í engu sé vikið að afleiðingum þess fyrir lýðheilsu, en slík sjónarmið eru tvímælalaust grundvöllurinn að áfengisstefnu í landinu,“ segir í umsögn ÁTVR um frumvarpið. Bent er á að með breytingunum sem felast í frumvarpinu mega farþegar kaupa meira af sterku áfengi. Þó er tekið undir það að breytingarnar auðveldi starfsfólki lífið.
„Að mati ÁTVR er hér um að ræða stefnubreytingu í andstöðu við lýðheilsusjónarmið. ÁTVR telur sjálfsagt að auka valfrelsi neytenda, þó án þess að auka heimildirnar - sérstaklega að því er varðar sterka áfengið.“

„Nýja tillagan býður upp á mun meiri sveigjanleika í kaupum milli flokka en nú er, sem er jákvætt, en það eitt og sér mun ekki leiða til þeirrar aukningar í sölu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Til að Fríhöfnin nái þeirri söluaukningu sem nauðsynleg er til að tryggja góðan rekstur eftir mikla hækkun á áfengisgjaldi og ef panta og sækja þjónustan verður óheimil í komuverslun væri æskilegt að það yrði einhver aukning í tollkvótanum.“
ISAVIA leggur til að ein eining af sterku áfengi verði 0,5 I í stað 0,25 I. „Og jafnvel að hámarks kaup á sterku áfengi verði 1 líter, þannig að ekki sé hægt að ráðstafa öllum kvótanum í sterkt áfengi,“ er bætt við í umsögninni.