Erlent

Átök í Úkraínu tefja rannsókn á flugi MH17

Snærós Sindradóttir skrifar
Þessir hollensku lögreglumenn voru staddir í Dónetsk-borg í austurhluta Úkraínu á sunnudag. Vegna átaka geta þeir ekki hafið rannsókn á hrapi MH17.
Þessir hollensku lögreglumenn voru staddir í Dónetsk-borg í austurhluta Úkraínu á sunnudag. Vegna átaka geta þeir ekki hafið rannsókn á hrapi MH17. Mynd/AP
Rannsókn á orsökum þess að malasíska flugvélin í flugi MH17 brotlenti í austurhluta Úkraínu hefur enn ekki hafist að fullu. Ellefu dagar eru síðan flugvélin hrapaði.

Óvopnuð alþjóðleg lögreglusveit, meðal annars frá Ástralíu, hugðist hefja rannsókn á vettvangi á sunnudag en þurfti frá að hverfa vegna átaka á svæðinu. Átökin standa enn sem áður á milli aðskilnaðarsinna sem eru hallir undir Rússa annars vegar og úkraínska hersins hins vegar.

Malasíska farþegaþotan var skotin niður fimmtudaginn 17. júlí síðastliðinn með flugskeyti frá jörðu niðri. Talið er að flugskeytið hafi borist frá yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna. Allir 298 sem voru um borð létust.

Sönnunargögn úr flaki vélarinnar liggja undir skemmdum vegna umgangs um svæðið. Rótað hefur verið í brakinu í leit að munum og enn á eftir að fjarlægja allar líkamsleifar af svæðinu.

Tony Abbot, forsætisráðherra Ástralíu, segir að öruggasta leiðin til að hefja rannsókn á svæðinu sé með óvopnuðu liði lögreglumanna. „Þetta er áhættusöm aðgerð. Það leikur enginn vafi á því,“ sagði Abbot.

Um það bil 170 ástralskir lögreglumenn bíða nú í Úkraínu eftir því að hefja rannsóknina. Fyrstu skref þeirra verða að ganga frá þeim líkamsleifum sem eftir eru á svæðinu. Alls hafa 227 kistur með líkamsleifum verið fluttar til Hollands. 


Tengdar fréttir

Uppreisnarmenn þverneita að hafa skotið vélina niður

Leiðtogi uppreisnarmanna í Úkraínu segir að hann og hans menn hafi ekki yfir að ráða Buk-eldflaugum, en talið er að skotfæri af þeirri tegundinni hafi grandað flugvél Malasíska flugfélagsins, með flugnúmeri MH17.

Óvíst hvort kennsl verði borin á alla

Stefnt að því að lokið verði við að flytja allar líkamsleifar þeirra sem voru um borð í Malaysian flugvélinni verði allar komnar til Hollands á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×