Lífið

Átakanlega fyndnir þættir á RÚV

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ekkert grín Ari og Bragi taka vinnuna alvarlega.
Ekkert grín Ari og Bragi taka vinnuna alvarlega. vísir/Arnþór
„Þetta er ennþá á byrjunarstigi en við erum þrír að skrifa þetta, ég, Ari Eldjárn og Guðmundur Pálsson úr Baggalút og þetta verða átakanlega fyndnir þættir,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, einn af handritshöfundum nýrra sketsaþátta sem hefja göngu sína á RÚV í vetur. Kristófer Dignus, sem leikstýrði síðasta Áramótaskaupi, sér um að leikstýra þáttunum.

Hér er á ferð sama teymi og kom að síðasta Áramótaskaupi en Ari, Guðmundur og Bragi verða hluti af leikhópnum. Þessir nýju íslensku grínþættir hafa fengið nafnið Drekasvæðið.

„Þeir tveir fá líklega að leika eitthvað en ég fæ sennilega lítið að leika,“ bætir Bragi Valdimar við.

Þessa dagana er verið að setja saman leikhóp en það er þó ekki alveg ljóst hverjir leika. „Þetta er ennþá allt svolítið í lausu lofti,“ segir Bragi Valdimar spurður út í leikarana. Stefnt er að því að setja þættina í loftið eftir áramót. „Það er enginn sérstakur söguþráður í þeim, þetta er bara sketsaþáttur.“ Spurður að því hvort þættirnir eigi sér einhverjar fyrirmyndir segir Bragi Valdimar þá vera nýtt íslenskt flipp.

„Við erum allir miklir áhugamenn um húmor og eigum okkur margar fyrirmyndir, ætli við séum ekki aðallega á bresku línunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×