Viðskipti innlent

Ástralar ánægðastir samkvæmt Ferðamannapúlsi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ferðamönnum hefur fjölgað ört síðastliðin ár.
Ferðamönnum hefur fjölgað ört síðastliðin ár. Vísir/Berglind
„Ferðaþjónusta er sá atvinnuvegur sem er að skapa mestar gjaldeyristekjur fyrir okkur þannig að það er gríðarlega mikilvægt að hafa góðar upplýsingar um ferðamenn og þeirra upplifun,“ segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Gallup á Íslandi.

Í gær var Ferðamannapúls Gallup, Isavia og Ferðamálastofu birtur í fyrsta sinn. Ferðamannapúlsinn mælir heildaránægju og heildarupplifun á heimsókn ferðamanna til Íslands. Almennt er mikil ánægja á meðal þeirra sem koma hingað, meðaleinkunnin var 85,8 af 100 í mars og 85,6 í febrúar.

„Þetta verður gefið út mánaðarlega hér eftir,“ segir Einar. „Þessar upplýsingar eru gríðarlegar mikilvægar til að spá fyrir um framtíðina. Ánægðir viðskiptavinir eru líklegri til að koma aftur og segja frá því. Fjöldi ferðamanna og gjaldeyristekjur segja meira um fortíðina, þetta gefur meira til kynna hvað gerist í framtíðinni.“

„Það verður áhugavert að sjá í sumar hvort meiri ferðamannafjöldi dragi úr ánægju, vegna álags á Leifsstöð og á ferðamannastöðunum. Þetta mun mælingin sýna okkur,“ segir Einar. Aðilum í ferðaþjónustu stendur einnig til boða að gera ítarlegar kannanir á sinni þjónustu þannig að þeir geti lagað þjónustuframboð að óskum ferðamanna.

Ástralar voru ánægðastir samkvæmt púlsinum með 89,5, Svisslendingar voru næstánægðastir með 88,9 og Bandaríkjamenn með 88,4. Norðurlandaþjóðirnar væru hins vegar óánægðastar. „Það væri mjög áhugavert að sjá sambærilegar kannanir í öðrum löndum,“ segir Einar Einarsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×