Enski boltinn

Aspasmarkasúpa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Coutinho fagnar fyrsta marki leiksins
Coutinho fagnar fyrsta marki leiksins Nordicphotos/getty
Liverpool vann öruggan 4-0 sigur á Preston North End í fyrsta æfingaleik liðsins í sumar. Fjölmargir leikmenn þreyttu frumraun sína með Liverpool í dag.

Markvörðurinn Simon Mignolet byrjaði í marki Liverpool og átti nokkuð náðugan dag. Kolo Toure var sömuleiði í hjarta varnarinnar en það var fyrrverandi leikmaður Liverpool sem kom sínu liði til aðstoðar eftir þrettán mínútur.

John Welsh, uppalinn Liverpool maður en miðjumaður Preston, braut þá á Philippe Coutinho innan teigs. Brasilíumaðurinn skoraði sjálfur úr spyrnunni. Áður en fyrri hálfleikur var allur hafði Jordon Ibe, hinn sautján ára kantmaður hinna rauðklæddu, skorað fallegt mark með langskoti.

Ibe fagnar marki sínu.Mynd/Heimasíða Liverpool
Liverpool gerði fjölmargar breytingar á liði sínu í hálfleik. Iago Aspas og Luis Alberto klæddust búningnum í leik í fyrsta skipti og sá fyrrnefndi kom við sögu um miðjan síðari hálfleikinn. Þá skoraði Raheem Streling þriðja mark Liverpool eftir lipurt spil við Aspas. Spánverjinn setti Sterling einan í gegn og Englendingurinn skoraði auðveldlega.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok skoraði svo Aspas sjálfur. Hann fékk þá boltann utan teigs eftir sendingu Glen Johnson. Aspas lét vaða með vinstri fæti og í netinu söng boltinn þótt markvörður Preston hefði getað gert betur.

Niðurstaðan 4-0 sigur Rauða hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×