Skoðun

Áskorun: Aukin þróunarsamvinna og ný ríkisstjórn

Framkvæmdastjórar hjálparsamtaka skrifar
Um áratugaskeið hafa íslensk stjórnvöld stutt markmið Sameinuðu þjóðanna um að velmegunarríki verji sem samsvarar 0,7% af vergum þjóðartekjum til að styðja við fátæk og óstöðug ríki. Á síðasta ári vörðu íslensk stjórnvöld hins vegar 0,24% af vergum þjóðartekjum til málaflokksins og 0,23% árið 2014. Hæst var framlag Íslands 0,37% árið 2008.

Markmið með þróunarsamvinnu Íslands er tvíþætt: Í fyrsta lagi að „styðja stjórnvöld í þróunarlöndum við að útrýma fátækt og hungri, stuðla að efnahags- og félagslegri þróun, þ.m.t. mannréttindum, menntun, bættu heilsufari, jafnrétti kynjanna og sjálfbærri þróun“ og í annan stað að „tryggja öryggi á alþjóðavettvangi, m.a. með því að stuðla að friði og gæta hans, vinna að uppbyggingu og veita mannúðar- og neyðaraðstoð.“

Það eru viðsjárverðir tímar. Átök geysa víða og af þeim sökum neyðist fólk jafnvel til að flýja heimili sín. Náttúruhamfarir, fátækt og skortur á menntun (einkum stúlkna) verða til þess að ástandið versnar. Ein afleiðing er aukinn fjöldi flóttafólks sem leitar til Evrópu og þar með talið Íslands. Er ekki kominn tími til að snúa vörn í sókn?

Við undirrituð, sem erum í forsvari fyrir hjálpar- og mannúðarsamtök í alþjóðlegu hjálparstarfi, skorum á verðandi ríkisstjórn og nýkjörið Alþingi að verða við yfirlýstum vilja þings og þjóðar og hækka framlög Íslands til þróunarsamvinnu þannig við getum aðstoðað fólk á heimslóðum þess, greitt götu kynjajafnréttis og eflt menntun stúlkna og drengja sem er forsenda aukinnar velferðar og velmegunar. Enginn vill þurfa að flýja, hvorki heimili sitt né heimaland, og hvað þá að láta lífið vegna fátæktar, hungursneyðar eða hamfara sem má koma í veg fyrir með aukinni samvinnu ríkra þjóða og fátækra.

Standið við stóru orðin. Það er löngu orðið tímabært – og aldrei þarfara en nú.

Bergsteinn Jónsson

frkvstj. UNICEF á Íslandi

Bjarni Gíslason

frkvstj. Hjálparstarfs kirkjunnar

Erna Reynisdóttir

frkvstj. Barnaheilla - Save the Children á Íslandi

Fríður Birna Stefánsdóttir

frkvstj. ABC barnahjálpar

Inga Dóra Pétursdóttir

framkvæmdastýra Landsnefndar UN Women á Íslandi

Kristín S. Hjálmtýsdóttir

frkvstj. Rauða krossins á Íslandi

Ragnar Gunnarsson

frkvstj. Kristniboðssambandsins

Ragnar Schram

frkvstj. SOS Barnaþorpa

Selma Sif Ísfeld Óskarsdóttir

formaður Alnæmisbarna




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×