Enski boltinn

Moses skaut Chelsea á toppinn með sjöunda sigrinum í röð | Sjáðu mörkin

Chelsea varð í dag fyrsta liðið til að vinna Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en Victor Moses tryggði sgurinn með marki af fjærstönginni í síðari hálfleik.

Christian Eriksen kom Tottenham yfir á 11. mínútu með fyrsta markinu sem Chelsea fær á sig í síðustu sex deildarleikjum eða frá því í september. Markið var afar smekklegt, en hann þrumaði boltanum í netið fyrir utan teig.

Allt stefndi í að þannig yrði staðan í hálfleik, en Pedro Rodriguez jafnaði metin með frábæru marki á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan því jöfn þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Vængbakvörðurinn Victor Moses kom svo Chelsea yfir í upphafi síðari hálfleiks þegar hann fékk sendingu fyrir markið og kom boltanum framhjá þeim Hugo Lloris og Jan Vertonghen. Chelsea skyndilega komið yfir.

Tottenham reyndi án afláts að reyna ná fram jöfnunarmarki, en ótrúleg sigurganga Chelsea heldur áfram og þeir virka í fantaformi. Lokatölur 2-1 sigur heimamanna á Stamford Bridge.

Þetta var sjöundi sigurleikur Chelsea í röð sem er á toppnum með eins stigs forskot, en Tottenham er í fimmta sætinu með 24 stig. Þetta var fyrsti tapleikur Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×