Enski boltinn

Smalling eyðilagði fyrir De Gea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Gea er hugsanlega á förum til Real Madrid.
De Gea er hugsanlega á förum til Real Madrid. vísir/getty
David De Gea, markvörður Manchester United, kann samherja sínum, Chris Smalling, eflaust litlar þakkir fyrir sjálfsmarkið sem hann skoraði gegn Bournemouth í lokaleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Smalling varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á þriðju mínútu í uppbótartíma í leiknum í gær.

Markið breytti reyndar engu um úrslitin þar sem United var 3-0 yfir en það kom í veg fyrir að De Gea ynni Gullhanskann svokallaða sem er veittur þeim markverði sem heldur oftast hreinu í úrvalsdeildinni.

De Gea var búinn að halda 15 sinnum hreinu fyrir leikinn í gær og var aðeins nokkrum sekúndum frá því að jafna við Petr Cech sem hélt marki Arsenal 16 sinnum hreinu í vetur.

Þetta er í fjórða sinn sem Tékkinn fær Gullhanskann en hann vann hann þrisvar sem leikmaður Chelsea.

De Gea, Kasper Schmeichel og Joe Hart voru jafnir í 2. sæti á eftir Cech en þeir héldu allir 15 sinnum hreinu á tímabilinu. Frakkinn Hugo Lloris, markvörður Tottenham Hotspur, kom svo næstur en hann hélt 13 sinnum hreinu í vetur.

Cech hefur unnið Gullhanskann fjórum sinnum.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×