Fótbolti

Emil genginn til liðs við Udinese | „Var ekkert á áætlun að færa sig um set“

Kristinn Pall Teitsson skrifar
Emil í leik gegn Juventus.
Emil í leik gegn Juventus. Vísir/Getty
Emil Hallfreðsson, leikmaður íslenska landsliðsins og Hellas Verona í ítölsku úrvalsdeildinni skrifaði í dag undir samning hjá Udinese.

Emil greindi frá því í samtali við Morgunblaðið í dag að hann færi í læknisskoðun í dag og staðfesti Udinese fyrir stuttu á heimasíðu sinni að Emil væri genginn til liðs við félagið.

Emil hefur leikið með Hellas Verona allt frá árinu 2010 og var í miklum metum hjá stuðningsmönnum liðsins. Hefur hann farið með liðinu upp um tvær deildir og hjálpað liðinu að festa sig í sessi í efstu deild á Ítalíu.

Í ár hefur hinsvegar lítið gengið upp hjá Verona sem er enn án sigurs. Samkvæmt ítölskum miðlum greiðir Udinese eina milljón evra fyrir íslenska miðjumanninn.

„Þetta er búið að gerast ótrúlega hratt en ég hef þó vitað af áhuga Udinese í svolítinn tíma. Þetta tækifæri er of gott til þess að neita því,“ sagði Emil í samtali við mbl.is en hann kveður Verona með söknuði.

„Það var ekkert á áætlun að færa sig um set og þó ég sé ótrúlega glaður að þetta sé að ganga í gegn í dag er maður aðeins búinn að gráta. Maður á mikið af góðum vinum hérna og það verður erfitt að fara,“ sagði Emil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×