Innlent

Stórmynd Scotts tekin á Íslandi

Charlize Theron hlaut Óskarsverðlaunin árið 2003 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Monster og var tilnefnd til sömu verðlauna tveimur árum seinna. Theron er meðal skærustu stjarna Hollywood en hún hefur leikið í kvikmyndum á borð við Hancock, The Italian Job og The Devil´s Advocate. Mynd/AFP
Charlize Theron hlaut Óskarsverðlaunin árið 2003 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Monster og var tilnefnd til sömu verðlauna tveimur árum seinna. Theron er meðal skærustu stjarna Hollywood en hún hefur leikið í kvikmyndum á borð við Hancock, The Italian Job og The Devil´s Advocate. Mynd/AFP
Stórmyndin Prometheus eftir Ridley Scott verður að hluta til tekin upp hér á landi í næsta mánuði. Óskarsverðlaunaleikkonan Charlize Theron og er væntanleg til landsins til að leika í myndinni en tökurnar standa yfir í um viku. Umfangið verður svipað og þegar tökur á kvikmyndinni Lara Croft fóru fram við Jökulsárlón fyrir rúmum áratug en alls munu 350 starfsmenn koma að þessu verkefni.

Meðal annarra stórstjarna sem fylgja tökuliðinu hingað til lands má nefna ástralska leikarann Guy Pearce, sem er frægastur fyrir leik sinn í Memento, L.A. Confidential og King´s Speech. Þá má fastlega gera ráð fyrir því að hin sænska Noomi Rapace endurnýi kynni sín við Ísland. Rapace þreytti frumraun sína fyrir framan tökuvélarnar í íslensku víkingamyndinni Í skugga hrafnsins eftir Hrafn Gunnlaugsson fyrir þrettán árum. Hún sló svo í gegn í Millennium-þríleiknum eftir bókum Stiegs Larsson.

Framleiðslustjóri myndarinnar, Sam Breckman, hefur hreiðrað um sig á skrifstofu framleiðslufyrirtækisins True North, sem hefur veg og vanda af tökunum hér á landi. Breckman er mikill reynslubolti í Hollywood og vann meðal annars með Chris Nolan þegar hann tók upp nokkrar senur fyrir Batman Begins við rætur Svínafellsjökuls árið 2005. Starfsfólk True North er hins vegar þögult sem gröfin og Leifur Dagfinnsson, framleiðandi hjá True North, vildi ekkert tjá sig við Fréttablaðið þegar eftir því var leitað.

- fgg





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×