Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Brýnt að eyða óvissunni

Seðlabankastjóri segir brýnt að óvissu af völdum dóms Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána létti sem allra fyrst. Áframhaldandi óvissa geti tafið endurreisn efnahagslífsins. Þá segir Már að bankarnir ráði vart við það ef vextir á gengistryggðum lánasamningum standi óbreyttir þegar gengistryggingin er horfin.

Stýrivextir voru lækkaðir um hálft prósentustig í morgun, og standa þeir nú í 8 prósentum. Helstu rök fyrir lækkun eru styrking krónunnar að undanförnu, lækkun verðbólgu og traustara aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Á fundi Seðlabankans í morgun kom fram að fyrstu skref í afnámi gjaldeyrishafta verði líklega tekin að lokinni þriðju endurskoðun á efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Óvissa vegna Icesave málsins takmarkar enn svigrúm til lækkunar vaxta. Og enn önnur hindrun er á veginum, því seðlabankastjóri segir að óvissan sem skapast hefur eftir nýlegan dóm Hæstaréttar um gengistryggð lán gæti grafið undan trausti, ef ekki verði fundin lausn í tíma.

„Það er verið að kasta boltanum á milli. Nú þarf einhver að taka forystu, taka boltann og skjóta honum í mark," segir Már.

Meðal þess sem þarf að finna lausn á eftir dóm Hæstaréttar er hvaða vextir verða reiknaðir á gengistryggðu lánin, hvort samningsvextirnir standi eða miðað verði við hærri vexti. Már segir að bankakerfið þoli vart að vextirnir standi óbreyttir.

„Þær niðurstöður sem við höfum hingað til benda eindregið til þess að höggið fyrir bankakerfið ef þetta verða óverðtryggðir vextir Seðlabankans eða reibor-vextir er viðráðanlegt. Það á ekki að hamla bankakerfinu í neinum teljandi mæli. Ef það fer í hitt þá mun bankakerfið þurfa endurfjármögnun frá ríkissjóði og sínum eigendum og ef sú endurfjármögnun er takmörkuð er hætt við því að bankakerfið muni ekki ráða við og styðja við þann endurbata sem þarf að eiga sér stað," segir Már.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×