Erlent

Samkomulag um fjárhagsaðstoð við Írland

Frá mótmælum í Írlandi. Mynd/AFP
Frá mótmælum í Írlandi. Mynd/AFP
Írsk og Evrópsk stjórnvöld ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa komist að samkomulagi um fjárhagsaðstoð við Írland. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vonast til að fjármálaráðherrar aðildarríkja undirriti samkomulagið í dag.

Írland hefur farið hvað verst allra Evrópuríkja út úr kreppunni, og ríkisstjórn landsins hefur boðað alvarlegan niðurskurð og skattahækkanir næstu fjögur árin.

Þarlend stjórnvöld hafa undanfarið átt í samningaviðræðum við Evrópusambandið, Evrópska seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um risalán til landsins.

Líkt og fréttastofa hefur greint frá mótmæltu tugþúsundir Íra niðurskurðinum og aðkomu sjóðsins á götum úti í gærdag.

Erlendir fjölmiðlar segja að upphæð lánsins sé í grennd við 85 milljarða evra, andvirði tæplega 13 þúsund milljarða króna. Hluta fjárins verður þegar varið til að treysta fjármögnun þarlendra bankastofnana og til að reyna að koma í veg fyrir að áhrifa skuldakreppunnar gæti í öðrum skuldsettum Evrulöndum. Annars er hætt við að óvissan sem blasir við fjárfestum á Evrusvæðinu verði til þess að ýta vöxtum á skuldabréfum skuldsettra ríkja áfram upp á við.

Búist er við að endurfjármögnun írsku bankanna komi til með að þýða að írska ríkið þjóðnýti einhverjar bankastofnanir, og eignist meirihluta í Bank of Ireland, stærstu fjármálastofnun landsins. Þá verður eiginfjárkrafa bankanna hækkuð.

Lán Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er til níu ára og var upphaflega sagt bera 6,7 prósent vexti, sem er um einu og hálfu prósenti meira en hvíldi á neyðarláni Grikkja. Írskir ráðherrar hafa hins vegar reynt að kveða niður orðróma um vaxtakjörin og sagt að fréttir af þeim hafi verið ónákvæmar.

Fjármálaráðherrar Evru- og Evrópusambandsríkja koma til með að funda í Brussel í dag til að undirrita lánasamninginn.

Stór Evruríki hafa lagt áherslu á að ljúka samkomulaginu áður en markaðir opna á morgun, en haft er eftir Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að hann vonist til að svo verði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×