Lífið

Heklar frjálsleg hálsmen

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir heklar falleg hálsmen sem hlotið hafa heitið Frjálsmen. fréttablaðið/stefán
Erla Sigurlaug Sigurðardóttir heklar falleg hálsmen sem hlotið hafa heitið Frjálsmen. fréttablaðið/stefán
Erla Sigurlaug Sigurðardóttir gaf út bókina Prjónaperlur – prjónað frá grasrótinni, ásamt frænku sinni fyrir jól. Erla hefur ekki setið auðum höndum síðan því auk þess að undirbúa útgáfu annarrar prjónabókar, Fleiri prjónaperlur, hefur hún verið að hekla falleg hálsmen sem hlotið hafa heitið Frjálsmen.

Nafngiftina segir hún til komna vegna þess að menin eru hekluð með frjálsri aðferð og því er ekkert þeirra alveg eins. „Ég byrjaði að hekla þessi hálsmen síðastliðinn október þegar ég lá í svínaflensu. Mig langaði afskaplega mikið að hafa uppskrift að svona hálsmeni í bókinni sem við gáfum út fyrir jól, en þar sem ég get aldrei heklað sama hlutinn tvisvar gekk erfiðlega að skrifa niður uppskriftina að þessu. Það hafðist þó á endanum,“ útskýrir Erla, sem hefur heklað og prjónað í rúmt ár. Hún segir prjónaskapinn vera skemmtilegt áhugamál og að gaman sé að sjá sína eigin sköpun verða til í höndunum á manni.

Aðspurð segist hún stefna að því að koma frjálsmenunum í valdar verslanir í nánustu framtíð en eins og er fást þau aðeins keypt á Netinu. „Ég ákvað að prófa að setja myndir af frjálsmenunum á Facebook nú fyrir páska og fékk frábærar viðtökur þar. Stefnan er svo að taka þetta lengra í nánustu framtíð og koma menunum í verslanir, ég er að vinna í þessu.“ - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×