Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri Kjöríss maður ársins í íslensku atvinnulífi

Valdimar Hafsteinsson.
Valdimar Hafsteinsson.

Valdimar Hafsteinsson, 44 ára framkvæmdastjóri Kjöríss í Hveragerði, er maður ársins 2010 í íslensku atvinnulífi, að mati Frjálsrar verslunar.

Valdimar hlýtur þennan heiður fyrir mikla fagmennsku í rekstri, ráðdeild, dugnað, hófsemi og útsjónarsemi sem gert hefur Kjörís að stöndugu og framúrskarandi fyrirtæki og einhverju þekktasta vörumerki landsins.

Valdimar hefur verið framkvæmdastjóri Kjöríss í samfellt sextán ár og byggt fyrirtækið upp ásamt systkinum sínum og móður eftir að faðir hans - og einn stofnenda Kjöríss - Hafsteinn Kristinsson féll skyndilega frá 1993, aðeins 59 ára að aldri.

Kjörís er 41 árs fjölskyldufyrirtæki og að því stendur vandað og traust fólk sem átt hefur fyrirtækið frá upphafi. Það byggir eingöngu á innri vexti og hefur aldrei yfirtekið annað fyrirtæki.

Í stjórn Kjöríss sitja fjórar konur og einn karlmaður. Velta þess á síðasta ári var 902 milljónir og hagnaður fyrir skatta 43 milljónir. Það skuldar lítið og er með sterkt eiginfjárhlutfall, 59%.

Kjörís fór afar varlega í útlánabólunni á árunum 2003 til 2007 og býr að því núna. Á sama tíma eru skuldir næstum sjö þúsund lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi í ólagi eftir hrunið og þarfnast endurfjármögnunar.

Kjörís er eitt þekktasta vörumerki landsins og er með um það bil 260 vörunúmer og framleiðir sjálft um 160 vörutegundir af ís.

Kjörís er fjórði stærsti vinnuveitandinn í Hveragerði. Það ríkir gagnkvæm virðing og hollusta á milli fyrirtækisins og starfsmanna. Við hrunið ákvað fyrirtækið að segja engum upp, lækka engin laun og minnka ekki starfshlutfallið hjá neinum.

Fjölskyldunni hafa borist mörg glæsileg kauptilboð í fyrirtækið en hún hefur hafnað þeim öllum; þetta er þeirra fag og við þetta vill fjölskyldan starfa.

Eiginkona Valdimars er Sigrún Kristjánsdóttir ljósmóðir og eiga þau þrjú börn, tvíburana Hafstein og Kristján og Guðbjörgu.

Verðlaunin verða afhent formlega á morgun, miðvikudag, 29. desember, kl. 16:00 á Hótel Sögu, í veislu sem Frjáls verslun heldur Valdimar til heiðurs.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×