Innlent

Arkitekt vill afsökunarbeiðni frá Merði

Mörður Árnason
Mörður Árnason
Mörður Árnason alþingismaður dregur ekki í land með ummæli sín um ábyrgð arkitekta á stöðu byggingarlistar á Íslandi.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu á miðvikudag sakar Sigríður Magnúsdóttir, formaður Arkitektafélags Íslands, Mörð um dónalega framgöngu þegar fulltrúar félagins mættu hjá umhverfisnefnd Alþingis.

„Vonandi er dónayfirlýsingin merki um það að faglegur metnaður sé að glæðast meðal arkitekta, að í stéttinni verði til einskonar „innra eftirlit“ sem sér um að skussum og gróðapungum er settur stóll fyrir dyrnar, setur höft á blinda þjónustu við verktakana,“ skrifaði Mörður á bloggsíðu sína eftir að Fréttablaðið sagði frá málinu.

Skrif Marðar á bloggsíðuna vöktu talsverðar umræður. Margir tóku undir með Merði sem sagði arkitekta kannski alsaklausa „af klessuhúsum og hrokabyggingum, burtruðningi fornra húsaverðmæta, fáránlegu Ameríkuskipulagi höfuðborgarsvæðisins, smekkleysi, stílrugli, lýtum í daglegu umhverfi okkar“.

Hilmar Þór Björnsson arkitekt sagði Mörð fara fyrir strikið. „Þú átt ekki að verja þennan dónaskap heldur að brjóta odd af oflæti þínu og biðja gesti þína, sem þú misbýður, afsökunar á framferðinu,“ skrifar Hilmar og undirstrikar að arkitektarnir hafi verið gestir umhverfisnefndar. „Þeir voru boðaðir af nefndinni og til að veita henni þjónustu, ríkinu að kostnaðarlausu.“ - gar


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×