Lífið

Jordan á meðal áhorfenda Gunnars

Bardagakappinn Gunnar Nelson keppir í Birmingham 25. september. Fréttablaðið/Valli
Bardagakappinn Gunnar Nelson keppir í Birmingham 25. september. Fréttablaðið/Valli

„Iðulega á svona bardögum þá er troðfullt af einhverju frægu fólki. Það væri vel við hæfi ef Jordan myndi fylgjast með kærastanum sínum," segir bardagakappinn Gunnar Nelson.

Hann mætir Bretanum Eugene Fadiora í Birmingham 25. september í blönduðum bardagalistum. Á eftir þeim etja kappi þeir Tom Watson og Alex Reid, eiginmaður glamúrgellunnar Jordan, í aðalbardaga kvöldins. Búast má við mikilli fjölmiðlaumfjöllun í Bretlandi fyrir bardagann og Gunnar býst við fjölda þekktra andlita í áhorfendaskaranum, þar á meðal Jordan.



Eiginmaður Jordan keppir sama kvöld og Gunnar.

Hún og Reid hafa verið áberandi á síðum breskra götublaða undanfarin ár. Jordan er þekktust fyrir fyrirsætustörf sín og Reid vakti athygli þegar hann sigraði í raunveruleikaþættinum Celebrity Big Brother. Hann er einnig þekktur fyrir að kalla sig Roxanne og klæða sig í kvenmannsföt.

Gunnar ætlar að fylgjast með bardaga Reids og Watsons en þangað til mun hann einbeita sér að eigin bardaga. Mótherjinn Fadiora hefur barist tíu sinnum og alltaf unnið og því þarf íslenski víkingurinn að taka á öllu sem hann á ætli hann að bera sigur úr býtum. Gunnar hefur gott sjálfstraust um þessar mundir því nýlega vann hann Danny Mitchell eftir tæplega þriggja mínútna bardaga. Mitchell þessi hafði fyrir viðureignina einungis tapað einu sinni á ferlinum og þá fyrir Fadiora.

Gunnar á von á skemmtilegum bardaga og er hvergi banginn, enda í hörkuformi um þessar mundir. „Maður stefnir á að gera líkt og áður og reyna að klára þetta örugglega." - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×