Lífið

Eve leikur ársins hjá reynsluboltunum

EVE Online var valinn leikur ársins hjá reynsluboltum vefsíðunnar mmorpg.com. Hilmar Veigar, forstjóri CCP, er ánægður með að taka hina leikina í bakaríið.
EVE Online var valinn leikur ársins hjá reynsluboltum vefsíðunnar mmorpg.com. Hilmar Veigar, forstjóri CCP, er ánægður með að taka hina leikina í bakaríið.
„Þetta er elsta harðkjarnasíðan í þessum bransa. Við kunnum mjög vel að meta að hafa verið valin,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, sem framleiðir tölvuleikinn EVE Online.

EVE Online var í vikunni valinn leikur ársins hjá vefsíðunni mmorpg.com, sem er ein sú stærsta sinnar tegundar heiminum. „Þetta er sá blaðamannahópur sem erfiðast er að gera til geðs,“ segir Hilmar. „Þeir eru búnir að vera í þessum bransa í áratugi og kalla ekki allt ömmu sína.“

EVE Online er fjölspilunarleikur þar sem þúsundir notenda spila á sama tíma í sýndarheimi á Netinu. Leikurinn War of Worldcraft er stærsti fjölspilunarleikur heims, en hann hafnaði í öðru sæti í vali reynslubolta vefsíðunnar mmorpg.com.

Aðspurður segir Hilmar að afrekið sé sérstakt vegna þess að EVE kom út árið 2003. „Það komu út nokkrir nýir og ferskir leikir í fyrra. Að við séum að taka þá í bakaríið er gaman,“ segir Hilmar á léttu nótunum. CCP sendi frá sér tvær uppfærslur fyrir EVE Online í fyrra sem féllu sérstaklega vel í kramið hjá gagnrýnendum og notendum.

Takmark Hilmars og félaga hjá CCP hefur verið að ná notendafjölda EVE Online fram úr fjölda Íslendinga. Takmarkinu er náð í dag, áskrifendurnir eru orðnir fleiri en 330.000, en Íslendingar eru tæplega 318.000. „Það var svakalegur ágangur í EVE um jólin. Leikurinn hefur tekið góðan vaxtarkipp,“ segir Hilmar.

Eru þið komin með nýtt takmark? „Við erum ekki alveg búin að „tjúna næsta target“ en eins og gangurinn er núna og viðurkenningin sem leikurinn er að fá þetta gamall, þá er augljóst að EVE hefur tækifæri til að fara talsvert hærra en í okkar villtustu draumum í upphafi.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×