Skoðun

Þurfa frambjóðendur til stjórnlagaþings ekki að gefa upp hagsmunatengsl sín?

Kristbjörg Þórisdóttir skrifar

Ég heiti Kristbjörg Þórisdóttir og er frambjóðandi til stjórnlagaþings. Ég lagði fram spurningu á borgarafundi á vegum stjórnlaganefndar sem haldinn var í Súlnasal á Hótel Sögu í síðustu viku og snerist hún um það hvort ekki verði kallað eftir því af hendi opinberra aðila að frambjóðendur til stjórnlagaþings gefi upp hagsmunatengsl sín. Sömu spurningu lagði ég fyrir fulltrúa Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins í símtali í dag. Svörin voru þau að kynning á slíkum upplýsingum væru ekki á hendi þessara aðila heldur yrði einungis kynnt það efni sem frambjóðendur sendu inn ásamt því að bent yrði á þær vefsíður sem frambjóðendur vilja vekja athygli á. Á fundinum var vísað til þess að þetta kæmi ekki fram í Lögum um stjórnlagaþing nr. 90/2010 . Í 9. gr. þeirra stendur einungis að Dómsmálaráðuneytið skuli undirbúa kynningarefni um frambjóðendur en ekki er nánar útlistað hvaða upplýsingum þurfi að kalla eftir.

Mögulegt er að fjölmiðlar muni fjalla um hagsmunatengsl frambjóðenda og nú þegar hefur vefsíðan Svipan www.svipan.is kallað eftir hagsmunatengslum sem hluta þeirra upplýsinga sem óskað er eftir frá frambjóðendum. Þetta tel ég vera jákvætt en ábyrgð á því að kalla eftir þessum upplýsingum og birta þær eigi að liggja hjá þeim sem annast kynningu á frambjóðendum samkvæmt lögunum þannig að hlutleysis sé gætt í hvívetna.

Frambjóðendur til Stjórnlagaþings eru einstaklingar sem bjóða fram krafta sína til þess að taka þátt í sögulegri endurskoðun nýrrar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Verkefnið á sér enga hliðstæðu. Ábyrgð þeirra sem ná kjöri á stjórnlagaþing er mikil og snýst um það að vera þátttakendur í því að endurskoða rammann um grunnstoðir íslensks samfélags.

Hluta þeirra orsaka sem ollu því að hérlendis hrundi efnahagslífið má rekja til kunningjasamfélagsins, ógagnsæis, ófaglegra vinnubragða og skorts á formfestu. Þetta kemur meðal annars fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Til þess að stjórnlagaþing og þingmenn þess njóti þess trausts sem nauðsynlegt er til þess að árangur náist tel ég grundvallaratriði að frambjóðendum sé gert skylt að upplýsa um sín hagsmunatengsl þannig að kjósendur geti gert upp hug sinn með upplýstum hætti.

Ég spyr kjósendur að því hvort þeir muni kjósa frambjóðendur sem ekki upplýsa um hagsmunatengsl sín?

Ég spyr frambjóðendur að því hvort þeir muni birta hagsmunatengsl sín?

Að lokum ítreka ég fyrirspurn mína til hins opinbera um hvort ekki verði kallað eftir hagsmunatengslum frambjóðenda til stjórnlagaþings? Það væri til dæmis hægt að gera það þannig að fyrirfram mótaðar spurningar um hagsmunatengsl verði sendar til frambjóðenda og svör þeirra svo birt sem ítarefni við kynningarefni á vefnum www.kosning.is

Til þess að byggja upp betra samfélag á Íslandi þurfum við að hefja verkið hér og nú!







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×