Innlent

Assange stofnar fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi

Julian Assange hefur stofnað fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi undir sama nafni og rekstraraðili Wikileaks notar. Með honum eru Ingi R. Ingason, Kristinn Hrafnsson og Gavin MacFadyen, prófessor í rannsóknarblaðamennsku.
Julian Assange hefur stofnað fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi undir sama nafni og rekstraraðili Wikileaks notar. Með honum eru Ingi R. Ingason, Kristinn Hrafnsson og Gavin MacFadyen, prófessor í rannsóknarblaðamennsku.

„Þetta er fyrirtæki sem er stofnað í tengslum við Wikileaks, það er engin starfsemi hafin, við erum ekki komnir með húsnæði og ég veit ekki hvenær starfsemi mun hefjast. Það hafa engir starfsmenn verið ráðnir og ég veit ekki hvað við verðum margir,“ segir Kristinn Hrafnsson blaðamaður. Julian Assange, oftast kenndur við Wikileaks, hefur stofnað fjölmiðlafyrirtækið Sunshine Press Productions hér á landi en þetta er sama fyrirtækjanafn og rekstraraðili Wikileaks notar.

Stofnendur fyrirtækisins ásamt Assange eru Ingi Ragnar Ingason tökumaður, Kristinn, sem hefur verið titlaður talsmaður Wikileaks í erlendum fjölmiðlum, og svo Gavin MacFadyen en sá er prófessor í blaðamennsku og mikill þungavigtarmaður í breskum fjölmiðlum. Hann var meðal annars leikstjóranum Michael Mann innan handar þegar hann gerði The Insider með Al Pacino og Russell Crowe í aðalhlutverkum.

Það hefur lengi verið í deiglunni að Wikileaks stofnaði útibú hér á landi. Assange hefur verið á hálfgerðum hrakhólum eftir að sænsk yfirvöld hófu að rannsaka ásakanir um nauðgun á hendur honum. Í viðtali við svissneska ríkissjónvarpið í byrjun nóvember sagðist Assange vera að velta því alvarlega fyrir sér að sækja um hæli í Sviss en það og Ísland væru einu löndin sem Wikileaks gæti starfað í.

Kristinn vildi ekki ræða fyrirtækið í neinum smáatriðum við Fréttablaðið, sagði tilgang þess vera framleiðslu, útgáfu og dreifingu fjölmiðlaefnis, myndefnis og prentaðs máls auk annarra hluta.- fgg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×