Innlent

Reiðarslag ef hætt verður við Helguvík

Það væri gríðarlegt reiðarslag ef eigendur Norðuráls hætta við byggingu álvers í Helguvík vegna óvissu um raforku og tafa á veitingu virkjanaleyfis segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Í sama streng tekur Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann segir stjórnvöld verða að nýta sér góðar horfur í efnahagslífinu og beita sér fyrir því að koma verkefnum á borð við álverið í Helguvík í gang.

Gylfi segir stjórnvöld verða að fylgja eftir batasporum í efnahagslífinu með þróttmeiri ákvörðunum í efnahagsmálum. Einkennileg staða sé uppi hjá stjórnvöldum í málefnum HS Orku, sem setji álver í Helguvík í uppnám.

Gylfi og Vilhjálmur eru sammála um að stjórnvöld verði að halda sig við áformaðan niðurskurð á ríkisútgjöldum á næsta ári, þrátt fyrir að efnahagsbati sé farinn að láta á sér kræla. Frekar eigi að horfa til þess að þurfa ekki að fara í áformaðar 60 milljarða aðhaldsaðgerðir á árunum 2012 og 2013.

Seðlabankinn hefði átt að vera djarfari í lækkun stýrivaxta, segir Gylfi, en vextirnir voru lækkaðir um eitt prósentustig í gær.

„Seðlabankinn má ekki búa til huggulegt skjól fyrir fjármagn, það hlýtur að vera mikið álag á ríkissjóð að halda uppi eiginfé bankans," segir Gylfi. Réttara væri að lækka vextina meira til að koma peningum sem nú liggi hjá Seðlabankanum út í atvinnulífið. - bj / sjá síðu 4





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×