Innlent

Undrandi á 120 þúsund króna framfærslu

Guðbjartur Hannesson, ráðherrra velferðarmála, segir mikilvægt að vinna gegn fátækt þannig að færri þurfi að sækja sér matargjafir hjá hjálparsamtökum. „Í fyrsta lagi þarf að laga grunnframfærslu sveitarfélaganna. Það er kannski „billegt" af mér að vera að vísa á sveitarfélögin en það hefur komið mér á óvart að þar er verið að vinna með 120 til 126 þúsund sem framfærslu," segir hann.

Guðbjartur var gestur Heimis Karlssonar og Kolbrúnar Björnsdóttur Í bítinu á Bylgjunni í morgun. Biðraðir eftir matargjöfum voru þar meðal annars til umræðu. Guðbjartur segir að félagsmálaráðuneytið hafi kallað eftir fundi með þeim hjálparsamtökum sem útbýta matargjöfum. „Við munum hitta þau fljótlega í október og fara yfir hlutverk hvers fyrir sig og hvernig við getum þéttriðið þetta net," segir hann.

Öll óvænt útgjöld snerta þá fátækustu sérstaklega illa, til að mynda útgjöld vegna veikinda. „Það er ljós að við þurfum líka að tryggja að við séum ekki með gjaldtökum, eins og varðandi lyf, að setja fólk í mikil vandræði," segir Guðbjartur.

Hann hefur þó ekki aðeins áhyggjur af þeim sem þjást af sárustu fátæktinni. „Ég hef áhyggjur af því fólki sem er í rauninni að standa í skilum, standa við allar sínar skuldbindingar en hefur afar takmarkaða peninga til framfærslu. Það þarf líka að hafa áhyggjur af þeim hópi ekki síður en mörgum öðrum," segir Guðbjartur.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni með því að smella hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×