Innlent

Forstjóri Magma stoltur af því að geta kallað Össur „félaga“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi og fyrrverandi forstjóri Geysis Green Energy.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi og fyrrverandi forstjóri Geysis Green Energy.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi, segir að hann og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi þekkst lengi og samskipti þeirra hafi verið á þeim nótum. Hann segir stjórnvöld aðeins hafa verið að vinna eftir gildandi lögum og ekkert óeðlilegt sé við tölvupóstssamskipti sín við ráðherra og embættismenn vegna fjárfestingar Magma í HS Orku.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær hlutaðist Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, til um kaup Magma Energy í HS Orku nokkuð eftir að hann hætti sem iðnaðarráðherra, þótt orku- og auðlindamál heyrðu ekki undir hann. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi, bað einnig Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, um frið fyrir Vinstri grænum í bréfi sem hann sendi á síðasta ári. Þá greindi fréttastofa frá ítarlegum tölvupóstsamskiptum Ásgeirs, sem þá var forstjóri Geysis Green, við ráðherra á embættismenn, sem voru á ansi vinalegum nótum og óskaði eftir hjálp þeirra við að „snúa ofan af vitleysunni" í andstæðingum fjárfestingar Magma á Íslandi og kvartaði meðal annars undan „suðið væri komið fram."

Var mikilvægt að fá pólitískt bakland fyrir þessum viðskiptum strax í byrjun? „Þetta snýst ekki um pólitískt bakland heldur snýst um það að aðilar máls hafa á öllum stigum kappkostað að upplýsa stjórnvöld um hvað væri í farvatninu svo það kæmi ekki stjórnvöldum á óvart ef einhver framþróun yrði í málinu. Þetta er fyrst og fremst kurteisi við stjórnvöld að upplýsa þau um hvað er í pípunum," segir Ásgeir Margeirsson.

Þú talaði um suð. Hvað áttu við með „suði" og hvers vegna sendirðu utanríkisráðherra tölvupóst? „Utanríkisráðherra var þá (júlí '09 innsk.blm) nýbúinn að láta af embætti iðnaðarráðherra og við vorum einfaldlega að lýsa skoðun á umræðum. Aðilar málsins hafa alla tíð unnið eftir lögum sem fólu í sér heimild einkaaðila og erlendra aðila á EES-svæðinu að fjárfesta í orkuvinnslu. Við urðum þess áskynja að ákveðnir aðilar væru ekki sáttir við það. (...) Orðið suð var notað um andmæli við þessum gjörningum sem voru í farveginum og voru í takti við lög og reglur," segir Ásgeir. Hann segist telja að baráttan gegn fjárfestingu Magma sé háð á röngum leikvelli, enda sé fyrst og fremst um skoðanaágreining að ræða um túlkun laga og reglna.

Ég hjó eftir orðalaginu, „sæll félagi Össur." Er þetta skírskotun í vináttu ykkar Össurar í stjórnmálum? „Ég er ekki virkur í stjórnmálum og hef aldrei verið. Ég hef hins vegar þekkt Össur lengi og maður á það til að ávarpa fólk sem maður þekkir kumpánlega. Og ég er bara stoltur af því." Ásgeir segist ekki leggja það í vana sinn að þéra fólk og hans samskipti við fólk sem hann þekki séu oftast á óformlegri nótum.

Sem stendur rannsakar nefnd forsætisráðherra kaup Magma á HS Orku. Nefndinni var ekki komið á fót með lögum og hún getur ekki ógilt kaupin. Sem stendur heldur Magma utan um 84 prósenta hlut í HS Orku og hefur gengið frá kaupum sem tryggir fyrirtækinu 98 prósenta hlut.

Þessi nefnd getur ekki ógilt kaupin og hún getur ekki tekið stjórnvaldsákvarðanir. Að því er virðist er hennar eina hlutverk að fjalla um málið. Hafa störf þessarar nefndar einhverja þýðingu fyrir ykkur og þessa fjárfestingu Magma? „Ég veit það ekki, ég held ekki. Ég get ekki vitað það," segir Ásgeir Margeirsson.










Tengdar fréttir

Bæjarstjóri gáttaður á bréfi forstjóra Magma

„Ég er gáttur á þessu bréfi og það setur málið í allt aðra stöðu," segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, um bréf forstjóra Magma til iðnaðarráðherra. Hann segir að sett hafi verið upp leikrit í kringum sölu Íslandsbanka á hlut Geysis Green Energy í HS Orku til Magma í stað lífeyrissjóðanna eða Norðuráls. Hann telur að samkomulag hafi verið gert um að selja raforku HS Orku til annarra fyrirtækja en álvers Norðuráls í Helguvík.

Sumar skoðanir Beatys taldar birtingarhæfar en aðrar ekki

Iðnaðarráðuneytið hefur afhent Fréttablaðinu hluta af bréfi sem Ross Beaty, forstjóri Magma, sendi Katrínu Júlíusdóttur iðnaðaráðherra 18. ágúst síðastliðinn. Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, var sent afrit af bréfinu.

GGE mótmælir vinnubrögðum og biðlar til umboðsmanns

Geysir Green Energy, sem á dögunum seldi hlut sinn í HS Orku, hefur sent viðskiptaráðherra bréf þar sem vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í kjölfar sölunnar er mótmælt. Fyrirtækið segir að nefnd, sem forsætisráðherra hefur skipað og á að rannsaka kaup Magma Energy Sweden á hlut GGE, starfi ekki í krafti neinna laga og sé í raun umboðslaus.

„Sæll félagi Össur“ - Magma bað ráðherra um frið fyrir Vinstri grænum

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hlutaðist til um kaup Magma Energy í HS Orku nokkuð eftir að hann hætti sem iðnaðarráðherra, þótt orku- og auðlindamál heyrðu ekki undir hann. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi, bað iðnaðarráðherra um frið fyrir Vinstri grænum í bréfi sem hann sendi á síðasta ári.

Magma mun ávallt eiga mest

Viðræður standa yfir á milli kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy og nokkurra lífeyrissjóða um kaup þeirra á 25 til 40 prósenta hlut í HS Orku. Áætlað verðmæti hlutarins er á bilinu átta til þrettán milljarðar króna. Magma Energy á 86 prósenta hlut í félaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×