Erlent

Enn meiri ofveiði í krafti ESB-styrkjanna

Skip við bryggju í Portúgal. nordicphotos/AFP
Skip við bryggju í Portúgal. nordicphotos/AFP
Styrkveitingar Evrópusambandsins í sjávarútvegi hafa orðið til þess að auka ofveiði frekar en að draga úr henni, samkvæmt nýrri skýrslu frá rannsóknarstofnuninni Pew Environment Group.

Evrópusambandið hefur reynt að draga úr fiskveiðum með því að greiða sjávarútvegsfyrirtækjum fyrir að taka eitthvað af skipum sínum úr notkun. Vandinn er sá, segir í skýrslunni, að útgerðir hafa fengið meira fé til að smíða ný skip og endurnýja þau gömlu heldur en veitt hefur verið til þess að fækka fiskveiðiskipum.

Þannig hafa útgerðir í raun aukið fiskveiðigetu sína með beinum fjárstuðningi Evrópusambandsins. „Fé úr opinberum sjóðum hefur verið notað til að styrkja ofveiði með skelfilegum afleiðingum fyrir lífið í hafinu,“ segir Markus Knigge, framkvæmdastjóri hjá Pew Environment Group. „Það ætti ekki að fjármagna neitt slíkt lengur.“

Samkvæmt skýrslunni fengu tíu ríki megnið af heildarstyrkveitingu ESB til sjávarútvegs á árunum 2000 til 2006. Spánn fékk mest, en hin fiskveiðiríkin eru Ítalía, Frakkland, Grikkland, Danmörk, Bretland, Portúgal, Þýskaland, Pólland og Svíþjóð.

Pólland er eina ríkið sem notaði meirihluta styrkjanna til að draga úr ofveiði.- gb


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×