Handbolti

Kári Kristján í leið til Wetzlar í Þýskalandi

Elvar Geir Magnússon skrifar
Kári Kristján Kristjánsson.
Kári Kristján Kristjánsson.

Handknattleiksmaðurinn Kári Kristján Kristjánsson mun yfirgefa herbúðir svissneska félagsins Amicitia Zürich í sumar og ganga til liðs við þýska úrvalsdeildarliðið Wetzlar.

Wetzlar er sem stendur í þrettánda sæti þýsku deildarinnar en Sigurður Bjarnason, Róbert Sighvatsson og Gunnar Berg Viktorsson eru meðal þeirra sem áður hafa leikið með liðinu.

Kári er línumaður og gekk í raðir Zürich fyrir aðeins ári. Dvölin hefur valdið Kára miklum vonbrigðum.

„Það er ekkert hérna eins og maður bjóst við. Við búum í fínni borg í góðri íbúð en allt í kringum handboltann hefur valdið vonbrigðum. Ef ég á að segja eins og er þá hefur þetta bara verið hundleiðinlegt. Það er nákvæmlega enginn áhugi fyrir handbolta hérna," sagði Kári Kristján í viðtali við Fréttablaðið fyrr í þessum mánuði.

Zürich er í miklum fjárhagsörðugleikum þó svo það hafi staðið við allar launagreiðslur hingað til. Það sameinast öðru félagi næsta sumar og í kjölfarið þarf væntanlega að semja upp á nýtt við leikmenn. Þeim er líka frjálst að fara annað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×