Viðskipti innlent

Seðlabankinn notaði 15 milljarða til að styrkja gengi krónunnar

Frá því í desember 2008 hefur Seðlabanki Íslands selt gjaldeyri fyrir 15,1 milljarð kr. til að styðja við gengi krónunnar. Verulega hefur dregið úr gjaldeyrissölu Seðlabankans síðustu mánuði og hefur bankinn ekki átt í viðskiptum á millibankamarkaði frá því í nóvember 2009.

Þetta kemur fram í svari Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar þingmanns Samfylkingarinnar um kostnað við að verja krónuna.

Ennfremur segir að endanlegur kostnaður Seðlabanka Íslands við þessi viðskipti muni ráðast af vaxta- og gengisþróun enda aukast innlendar eignir Seðlabanka Íslands við sölu gjaldeyris. Bein kostnaðargreining ríkissjóðs á þessum viðbúnaði sem og öðrum stjórntækjum sem nýtt hafa verið til þess að tryggja aukinn gengisstöðugleika er verulegum vandkvæðum bundin.

„Eitt meginmarkmið efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) er að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og draga þar með úr neikvæðum áhrifum verulegrar viðbótar gengislækkunar á efnahag heimila og fyrirtækja," segir í svarinu.

„Stjórnvöldum hefur orðið verulega ágengt á þessu sviði undanfarna mánuði. Þrjú megintæki hafa verið nýtt til þess að auka gengisstöðugleika: vextir Seðlabanka Íslands, gjaldeyrishöft og inngrip á gjaldeyrismarkaði. Allir þessir þættir geta haft kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, sem þó er mjög erfitt að meta.

Í ljósi kostnaðar við þennan viðbúnað fyrir ríkissjóð og hagkerfið í heild er mikilvægt að efnahagsstefnu stjórnvalda og AGS sé fylgt af einurð svo að endurvinna megi traust á íslenskt efnahagslíf og hægt verði að afnema gjaldeyrishöft, draga úr inngripum á gjaldeyrismarkaði og koma fyrirkomulagi peningamála hér á landi í viðunandi horf á nýjan leik."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×