Innlent

Pólitískt líf Steingríms hangir á bláþræði

Höskuldur Kári Schram skrifar

Pólitískt líf Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, kann að vera á enda fari svo að ekki náist samningar við Breta og Hollendinga fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardag. Algjör pattstaða er nú í málinu ytra og engir fundir verið boðaðir. Stjórnarkreppa gæti blasað við.

Fáir hafa lagt jafn mikið undir í Icesave málinu eins og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Segja má að hann þurft að bera hitann og þungann í málinu allt frá því að fyrsta samkomulagið leit dagsins ljós í sumar.

Þá hefur hann ekki einungis þurft að svara gagnrýni stjórnarandstöðu heldur einnig barist við klofning innan eigin flokks. Ögmundur Jónasson, sagði af sér sem heilbrigðisráðherra vegna málsins og þá greiddi hann einnig atkvæði gegn Icesave frumvarpinu ásamt Lilju Mósesdóttur.

Náist ekki nýtt samkomulag við Breta og Hollendinga fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og málið síðan fellt þar er það mat heimildarmanna fréttastofu innan stjórnarflokkanna að pólitísk staða Steingríms sé þá orðin afar veik. Hann sitji þá uppi með hálf klofinn flokk og afar veikt umboð til að halda utanum áframhaldandi viðræður í Icesave málinu.

Eins og staðan er núna bendir fátt til þess að samkomulag við Breta og Hollendinga sé í sjónmáli. Ekki var fundað formlega í dag og engir fundir hafa verið boðaðir. Enn er deilt um fjármagnskostnað og málið komið í pattstöðu.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Steingrímur hafa forðast að tengja þjóðaratkvæðagreiðsluna við ríkisstjórnarsamstarfið.

Ef Steingrímur segir hins vegar af sér er líf ríkisstjórnarinnar í verulegri hættu og vaxandi líkur á stjórnarkreppu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×