Viðskipti innlent

Gylfi: Ríkið gæti mótmælt

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Viðskiptaráðherra segir að ríkið gæti mótmælt of háum launum skilanefndarmanna sem einn af kröfuhöfum bankanna. Hann vill þó ekki fullyrða um að slíkt sé í burðarliðnum.

Greint var frá því í gær að mánaðarlaun skilanefndarmanna og slitastjórna í Glitni, Kaupþingi og gamla Landsbankanum námu allt frá þremur til fimm milljónum króna á mann í fyrra.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir að eftirlitið sé hjá kröfuhöfunum og þeir geti mótmælt launagreiðslum skilanefndarmanna þar sem þeir greiði launin og dómstólar svo úrskurðað í þeim efnum. Hins vegar geti ríkið sem er einn kröfuhafa bankanna einnig haft eitthvað um málið að segja.

„Sem kröfuhafi þá getur ríkið mótmælt," segir Gylfi. „Ég vil ekkert fullyrða um það enda stendur það ekki upp á mig að taka ákvörðun um það," segir hann aðspurður hvort hann telji að það gerist enda heyri það undir fjármálaráðuneytið.

Telur að mannlegt eðli muni ekki breytast við hrunið



Við spurðum viðskiptaráðherra einnig um skoðun hans á málum Hlyns Jónssonar, formanns slitastjórnar SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans, sem Stöð 2 greindi frá síðustu helgi. En Hlynur skrifar reikninga fyrir nýstofnað lögfræðifyrirtæki sitt Nýsúlu, sendir þá á slitastjórnirnar, skrifar upp á þá og borgar svo sem formaður slitastjórnanna.

„Ég ætla ekki að reyna að skera úr um það en það er einfaldlega þannig að ef menn telja að einhver sé vanhæfur til þess að sitja í slitastjórn eða skilanefnd þá getur dómstóll vikið honum. Þannig að það verður einhver að bera fram kröfu um það til þess að fá úr því skorið," segir Gylfi.

Aðspurður hvort hann óttist að menn fari að misnota aðstöðu sína segir Gylfi: „Auðvitað óttast ég það enda verður allt gert til að koma í veg fyrir það bæði með breytingum á lögum og reglum og breyttri hegðan eftirlitstofnanna. Þannig að það er allt gert til þess að koma í veg fyrir það, en ég á ekki von á því að mannlegt eðli breytist mikið við hrunið."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×