Viðskipti innlent

Fólk í miklum vanskilum skemmir bílana

Vanskil einstaklinga og fyrirtækja með bíla í rekstrarleigu hafa aukist milli ára. Dæmi eru um að viðskiptavinir skemmi bíla og taki vélarhluta úr þeim áður en þeim er skilað.

„Við reynum að bregðast við vanda viðskiptavina okkar. En oft dugir það ekki til. Við getum ekki gert meira en í boði er," segir Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar. Hann er langþreyttur á háværum mótmælum viðskiptavina eignaleigufyrirtækja. Nokkrir hinna háværustu hafa lengi glímt við fjármagnserfiðleika, sumir ekki greitt fyrstu afborgun af rekstrarleigu en koma fram í fjölmiðlum sem fórnarlömb, að hans sögn.

Talið er að í kringum sextíu þúsund bílar séu í rekstrarleigu hjá einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Kjartan segir vanskil hafa aukist en vill hvorki nefna breytingu á milli ára né hversu marga bíla SP-Fjármögnun hafi tekið af fólki. Hann segir suma viðskiptavini trega til að láta bílana af hendi.

Dæmi eru um að viðskiptavinir SP-Fjármögnunar hafi skemmt bíla sem þeir höfðu í leigu áður en fyrirtækið gekk að þeim. Í sumum tilvikum eru þeir gjörónýtir. Á borði Kjartans eru nú þrjú mál af þessum toga. Þar er um að ræða tvo vélsleða og Porsche-sportbíl, sem búið er að taka vélar úr, og nýlegan Volvo, sem dekkin hafa verið tekin undan. Þá leikur grunur á að bílar sem ekki finnast hafi verið sendir úr landi. „Það er hreinn og klár þjófnaður," segir hann.

Forsvarsmenn annarra eignaleiga segja vanskil hafa aukist og einhverjar skemmdir unnar á bílunum. Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, segir alltaf eitthvað um þær.

Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri Avant, bendir á að misjafn sauður sé í mörgu fé. Hann vill þó ekki taka undir að viðskiptavinir skemmi bíla í rekstrarleigu. „Það koma alltaf upp tilvik sem við myndum vilja hafa öðruvísi," segir hann. Þótt vanskil hafi aukist milli ára sé það í hlutfalli við mikla fjölgun lánasamninga, að hans sögn. -Jonab





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×