Innlent

Icesave: Samningar taki mið af lagalegri óvissu

Dr. Michael Waibel.
Dr. Michael Waibel.

Dr. Michael Waibel, sérfræðingur í alþjóðalögum við háskólann í Cambridge á Englandi segir enga klára lagaskyldu hvíla á herðum Íslendinga til þess að borga Icesave-skuldina.

Í lesendabréfi sem birtist í Financial Times í dag minnir hann á að engin alþjóðalög séu fyrir hendi sem þvingi Íslendinga til þess að borga. „Þetta er staðreynd sem Fitch tók ekki tillit til þegar ákveðið var að lækka lánshæfismat Íslands. Bretland myndi líklega mæta töluverðum hindrunum færi málið fyrir dóm," segir Weibl einnig og bætir því við að möguleika Breta á að vinna slíkt dómsmál séu í besta falli 60 prósent.

„Langdregin deila í réttarsal er engum til framdráttar í þessu máli," segir hann einnig og því ættu Bretar og Hollendingar að hans mati að fara að sýna alvöru vilja til málamiðlunar, „í stað þess að nýta sér mátt sinn innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og á öðrum sviðum til þess að fá sem mest í sinn hlut."

Allir samningar í Icesave málinu ættu því að taka mið af þeirri lagalegu óvissu sem er uppi um það hve mikið Íslendingar eigi í raun og veru að greiða. „Þessi óvissa ætti að leiða til verulegs afsláttar á heildarupphæðinni og ásættanlegrar vaxtaprósentu."

Weibler minnir að lokum á ráð sem Elihu Root fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafi Nóbels gaf ráðgjafa sínum eitt sinn: „Við verðum ávallt að vara okkur á því, og sérstaklega gagnvart minni ríkjum, að stinga aldrei upp á sáttatillögu sem við sjálfir værum aldrei til í að samþykkja ef við værum í þeirra stöðu."











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×