Innlent

Hefur miklar áhyggjur af landflótta íslenskra lækna

Breki Logason skrifar
Gunnar Ármannsson framkvæmdarstjóri Læknafélags Íslands
Gunnar Ármannsson framkvæmdarstjóri Læknafélags Íslands MYND/Læknablaðið

Gunnar Ármannsson framkvæmdarstjóri Læknafélags Íslands hefur miklar áhyggjur af landflótta íslenskra lækna. Hann segir mikinn áhuga vera á íslenskum læknum á norðulöndunum og nú síðast hafi komið fyrirspurnir frá Manitoba í Kanada. Hann segir að heilbrigðisráðherra verði að passa sig á því að tala ekki lækna frá landinu.

Danska sendiráðið hafði samband við Læknafélagið fyrir skömmu þar sem félagið var beðið um aðstoð við að koma á sambandi við íslenska lækna. Hann segir Norðmenn hafa auglýst eftir íslenskum læknum í fjölmiðlum og Svíar hafi einnig sýnt áhuga. „Nýjast er síðan erindi sem okkur barst frá Manitoba í Kanada," segir Gunnar.

Hann segir að hingað til hafi Læknafélagið ekki stuðlað að því að læknar fari úr landi vegna ástandsins en ef læknar hafi leitað til þeirra hafi þeir látið þá hafa upplýsingar. Nú sé staðan hinsvegar önnur.

„Við þekkjum dæmi þess að læknar sem eru nýkomnir heim úr sérnámi eru fluttir aftur út. Við höfum bent fyrrverandi og núverandi heilbrigðisráðherra ásamt forstjóra Landspítalans og heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að ef það verði þrengt frekar að kjörum lækna í ósamræmi við aðra þá muni það hjálpa þeim að taka ákvörðun um að fara úr landi, það liggur fyrir," segir Gunnar.

Hlaupist undan merkjum

Hann segir viðkvæðið sem þeir hafi mætt vera á þá leið að hættan sé nánast engin og það sé samfélagsleg skylda lækna að vera hér á landi.

„Núna er það hinsvegar þannig að við erum með staðfest dæmi um að læknum hefur verið sagt upp vegna sparnaðar. Íslenskir ráðamenn hafa sagt að þeir trúi því ekki að íslenskir læknar hlaupist undan merkjum en læknar eru líka fólk og þegar það fer að þrengja að þá verða þeir að hugsa um hag fjölskyldna sinna," segir Gunnar sem er með miklar áhyggjur af ástandinu.

Hann bendir á hversu auðvelt það sé fyrir lækna sem lokið hafa sérfræðinámi erlendis að fá vinnu í viðkomandi landi. Hann segir einng að í mörgum stórum sérgreinum hér á landi sé aldurssamsetning lækna þannig að margir eigi ekki eftir nema 10 ár af sinni starfsævi. „Við þurfum að fá fólk heim til þess að fylla þessi skörð og það er ekki að gerast."

Gunnar vill þó taka skýrt fram að læknar séu ekki stikkfrí í þeim niðurskurði sem nú ríður yfir þjóðfélagið. „En það eru staðfest dæmi þess að verið er að skerða kjör lækna upp í allt að 20% sem er meira en hjá til dæmis æðstu ráðamönnum þjóðfélagsins."

Vandamálið er til staðar

Hann segir að nú sé beinlínis verið að ýta læknum úr landinu og bendir á þá miklu umræðu sem farið hefur fram upp á síðkastið varðandi kjör lækna.

„Það er alveg hægt að taka einstök tilvik þar sem launin eru há. En obbinn af læknum hefur ekkert annað en það sem bundið er í kjarasamningum og þeir vinna mikla yfirvinnu til þess að hífa upp tekjurnar hjá sér, grunnlaunin eru afar lá. Og við verðum að átta okkur á því að þegar það fækkar enn meira þá geta þeir sem eftir standa ekki bætt við sig endalausri yfirvinnu."

Gunnar segir að núverandi heilbrigðisráðherra ætti að passa sig á því að tala ekki lækna út úr landinu, ástandið sé grafalvarlegt og áhyggjur manna séu raunverulegar.

„Við getum auðvitað ekkert sagt til um hversu stórt það verður, en vandamálið er svo sannarlega til staðar."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×