Innlent

Valnefnd mælir með tengdasyni biskups

Sigurður Arnarson.
Sigurður Arnarson.
Valnefnd leggur til að tengdasonur biskups verði skipaður sóknarprestur í Kársneskirkju í Kópavogi. Formaður sóknarnefndar segir faglega hafa verið að staðið að málum. Þjóðkirkjan var dæmd skaðabótaskyld þegar tengdasonurinn var ráðinn sendiráðsprestur í London haustið 2003.

14 umsækjendur sóttu um stöðu sóknarprests í Kársnesprestakalli en umsóknarfrestur rann út 7. september. Valnefnd lagði í síðustu viku til að Karl Sigurbjörnsson, biskup, skipi séra Sigurð Arnarson í stöðu sóknarprests í sókninni, en hann er tengdasonur Karls. Það er síðan biskup sem skipar formlega í embættið til fimm ára að fenginni umsögn 9 manna valnefndar.

Kristín Líndal, formaður sóknarnefndar Kársneskirkju, segir að allir umsækjendur hafi verið kallaðir í viðtal. Í framhaldinu hafi valið verið þrengt niður í fimm umsækjendur og þeir verið teknir á ný í viðtal. Að lokum hafi Sigurður verið metinn hæfastur og því hafi nefndin lagt til að hann verði ráðinn. Kristín segir að vinnubrögð valnefndar hafi verið til fyrirmyndar og afar vandlega hafi verið staðið að málum.

Sendiráðsprestur í London

Undanfarin ár hefur Sigurður gegnt stöðu sendiráðsprests í London. Hann var einn af tveimur umsækjendum um stöðuna árið 2003. Biskup vék í málinu vegna tengsla sinna við Sigurð og skipaði þess í stað þriggja manna hæfisnefnd sem hann kvað á um að myndi skila bindandi niðurstöðu. Nefndin valdi Sigurð en hinn umsækjandinn um stöðuna, Sigríður Guðmarsdóttir, var ósátt með málsmeðferðina og skaut málinu til dómstóla.

Héraðsdómur komst í janúar 2006 að þeirri niðurstöðu að biskupi hafi ekki verið heimilt að framselja vald sitt og enn fremur hefði niðurstaða nefndarinnar ekki átt að vera bindandi. Þjóðkirkjan var því dæmd skaðabótaskyld gagnvart Sigríði. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð haustið 2006.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×