Innlent

Telur gegnsæ hlutafélög geta slegið í gegn

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Pétur Blöndal vill sjá gegnsæ hlutafélög á markaði.
Pétur Blöndal vill sjá gegnsæ hlutafélög á markaði. Mynd/GVA

„Þetta gæti smitað til útlanda og orðið form sem menn horfa til um allan heim," segir Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um tillögu sína um gegnsæ hlutafélög.

Annað þingið í röð leggja þingmenn úr Sjálfstæðisflokki fram tillögu um að viðskiptanefnd verði falið að semja lagafrumvarp um slík hlutafélög, eða ghf.

Samkvæmt tillögunni yrði nýjum kafla bætt við hlutafélagalögin sem skilgreinir svokölluð gegnsæ hlutafélög. Gerðar eru ákveðnar kröfur til gegnsærra hlutafélaga um eignarhald, gegnsæi og eigendalán svo dæmi séu nefnd, en þær má sjá hér að neðan.

Þau hlutafélög sem sannanlega uppfylla þessar kröfur geta síðan kallað sig gegnsæ, en endurskoðendum fyrirtækjanna er gert að votta það að viðurlagðri refsingu.

Pétur telur að margir séu brenndir eftir hlutabréfakaup og fjárfestingar undanfarinna ára og gætu eingöngu hugsað sér að fjárfesta í gegnsæjum hlutafélögum.

Þannig gæti þörfin fyrir fjármögnun orðið fyrirtækjunum öflugur hvati að gerast ghf., sem er í greinargerð tillögunnar lýst sem einskonar stjörnuflokki hlutabréfa.

„Til að eiga möguleika á hlutafé og lánsfé þá taka fyrirtæki upp þessar reglur. Þá mun geysilega margt breytast. Þú munt ekki sjá þessar peningamaskínur lengur," segir Pétur, sem telur hin miklu krosseignatengsl og eigendalán sem viðgengust ákveðið  sjúkdómseinkenni.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að bæði Kauphöllin og Seðlabankinn hafi tekið undir mikillvægi þess að gagnsæi ríki í rekstri hlutafélaga. Neytendasamtökin fagna tillögunni, en aðrir aðilar tóku ekki beina afstöðu til hennar.

Tillöguna, ásamt greinargerð, má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×