Innlent

Fordæmi fyrir að útlendingur sé settur í embætti

Valur Grettisson skrifar
Þorsteinn Pálsson, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, setti Carlos Ferrer tímabundið sem sóknarprest út á landi.
Þorsteinn Pálsson, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, setti Carlos Ferrer tímabundið sem sóknarprest út á landi.

Þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, setti erlendan ríkisborgara sem embættismann árið 1994. Það var presturinn Carlos A. Ferrer sem gegndi embætti sóknarprests á Fáskrúðsfirði í fjóra mánuði á meðan hann var enn erlendur ríkisborgari.

Að hans sögn var það þáverandi biskup sem leitaði til dóms- og kirkjumálaráðuneytis til þess að kanna hvort það væri mögulegt að skipa Carlos sem sóknarprest. Niðurstaðan varð sú að Carlos var settur prestur í fjóra mánuði, það var frá september fram í lok desember 1994.

„Það voru einhver áhöld um það þegar ég væri settur og þá yfir höfuð hvort ég væri kjörgengur," rifjar Carlos upp en hann starfar nú sem grunnskólakennari. Hann segir að biskup hafi leitað fyrir hans hönd til ráðuneytisins.

„Þetta var allavega túlkun dóms- og kirkjumálaráðherra að tímabundin setning væri í lagi," segir Carlos um málið en hann hlaut ríkisborgararétt árið 1995.

Uppi hafa verið miklar deilur um Svein Harald Öygard, nýjan Seðlabankastjóra, en hann er norskur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gagnrýnt setningu Sveins og heldur því fram að hugsanlega sé að um ólöglegan gjörning að ræða út frá stjórnarskrá Íslands. Þar segir að embættismenn sem þjóni hér á landi verði að vera íslenskir ríkisborgarar.

Þá hefur Sigurður Líndal, lagaprófessor, einnig sett spurningamerki við tímabundna setningu Sveins.

Ekki er ljóst hvort dæmi Carlosar sé fordæmisgefandi eða hvort þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra hafi einnig brotið lög líkt og sjálfstæðismenn saka forsætisráðherra um nú.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×