Erlent

Dr. Dauði lést í Kaíró 1992

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Aribert Heim.
Aribert Heim.

Þýski stríðsglæpamaðurinn Aribert Heim lést í egypsku borginni Kaíró árið 1992, samkvæmt nýrri rannsókn.

Þýska útvarpsstöðin ZDF greindi frá þessu í gær og sagði ítarlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að maður að nafni Tarek Farid Hussein hafi í raun verið Heim. Efraim Zuroff hjá Simon Wiesenthal-stofnuninni segir þetta harmafregn, reynist hún sönn, og kveður það skelfileg vonbrigði að Aribert Heim hafi komist hjá refsingu. Zuroff er einn af helstu eftirleitarmönnum stríðsglæpamanna úr röðum nasista og segist hann í viðtali við CNN munu rannsaka öll gögn málsins í þaula.

Hann lýsir Heim sem einum hættulegasta stríðsglæpamanni nasista fyrr og síðar. Wiesenthal-stofnunin hafi verið að því komin að hækka verðlaun fyrir upplýsingar er leitt gætu til handtöku hans úr rúmum 300.000 evrum í eina milljón evra þegar fregnir bárust af andlátinu.

Heim starfaði sem læknir í Mauthausen-útrýmingarbúðunum í Austurríki og gekk þar undir hinu huggulega viðurnefni dr. Dauði en hann stjórnaði mjög vafasömum tilraunum á föngunum. Hann var upphaflega hreinsaður af ásökunum um stríðsglæpi en árið 1962 ákváðu þýsk yfirvöld að fyrirskipa handtöku hans.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×