Viðskipti innlent

Jón skipaði Árna sem tilnefndi Jón og sig sjálfan í bankastjórn

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, hefur tilnefnt sjálfan sig í stjórn Íslandsbanka. Jón Sigurðsson hefur verið tilnefndur sem formaður í stjórn bankans. Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins á síðasta ári þegar skilanefnd Glitnis var skipuð, en Árni Tómasson var einmitt skipaður af FME.

Skilanefnd Glitnis bíður nú eftir samþykki FME á þeim 6 stjórnarmönnum sem skilanefndin hefur tilnefnt í bankaráð Íslandsbanka, á meðal þeirra sem eru tilnefndir er Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, en Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins fram að hruni, en hann var skipaður formaður þess í ársbyrjun 2008.

Jón Sigurðsson hefur rík tengsl við Samfylkinguna og var skipaður stjórnaformaður FME af Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra. FME skipaði síðan skilanefnd Glitnis, sem stofnaði ISB Holding ehf. sem tilnefndi Jón sem stjórnarformann Íslandsbanka og fimm aðra stjórnarmenn.

Glitnir er þrotabú og getur lögum samkvæmt ekki átt banka. Þess vegna var farin sú að leið að stofna ISB Holding ehf. sem sótti síðan um leyfi hjá FME til að eiga 95 prósent hlut í Íslandsbanka. Í stjórn þess félags eru Marta Eiríksdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Íslandsbanka, Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og María Björg Ágústsdóttir, starfsmaður skilanefndar Glitnis.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði ISB Holding ekkert með tilnefningu Jóns og Árna að gera, heldur hafði tilnefning hans verið ákveðin áður. Ákvörðun um tilnefningu var tekin af skilanefnd Glitnis.

Á glærukynningu sem sýnd var lokuðum hópi kröfuhafa, svokölluðum ICC-kröfuhafahópi, fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan, var Árni sjálfur nefndur sem mögulegur stjórnarmaður í Íslandsbanka ásamt Jóni. Tilnefning þeirra hefur því staðið til lengi. Í stuttu máli er það því Árni Tómasson sem skipar Árna Tómasson, í stjórn Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×