Viðskipti innlent

Steingrímur vill halda í krónuna - ósammála Mats Josefsson

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fjármálaráðherra segir að reynsla þessa árs hafi sannfært hann enn betur um kosti þess að hafa íslensku krónuna. Hann er enn fullviss um að Íslendingar eigi að standa utan Evrópusambandsins og telur ólíklegt að þjóðin fái samning út úr aðildarviðræðum sem verði svo góður að það verði mikið álitamál.

Vinstri grænir eru í þeirri einkennilegu stöðu að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn best fyrir því af krafti að Íslendingar gangi í Evrópusambandið á meðan pólitísk sannfæring formanns Vinstri grænna, Steingríms J. Sigfússonar, og flestra annarra í þingflokknum, er á þann veg að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið utan sambandsins.

„Ég met það svo að það sé ekki hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Það hefur ekkert breyst í mínu mati á því. Ég sé ekkert sjónmáli sem er líklegt að hafa þar áhrif á mig. Ef eitthvað er þá hefur reynslan af þessu ári sannfært mig enn betur um kostina sem geta verið því samfara að hafa eigin gjaldmiðil," segir Steingrímur.

Steingrímur segir að það horfi allir á íslensku krónuna sem veikleika en gleymi kostunum sem henni fylgi.

„Það horfa allir á það sem veikleika en gleyma hinu að við vissar aðstæður getur það skipt sköpum fyrir lönd að koma sér í gegnum erfiðleika. Það er enginn vafi á því að það sem er að hjálpa okkur mjög mikið er að útflutnings- og samkeppnisgreinar búa við hagstæð skilyrði og það hleypur kraftur í þær við þessar aðstæður og það skiptir okkur afar miklu máli," segir Steingrímur.

Steingrímur segist kynna sér allar upplýsingar vel og meti hlutina út frá aðstæðum hverju sinni. Það hafi þó ekki breytt afstöðu hans.

Hann er þarna algjörlega ósammála Mats Josefsson, ráðgjafa ríkisstjórnarinnar við endurreisn bankanna, en hann sagði í samtali við fréttastofu á Þorláksmessu að hann sæi ekki hvernig Ísland gæti haldið áfram að vera með eigin gjaldmiðil.

Hann segir að aðlögunarhæfni hagkerfisins sé m.a að sýna sig í gegnum gjaldmiðilinn og fleira komi til. „Í það heila tekið hefur mín afstaða ekki breyst í þessum efnum. [...] Það er ekki hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið og ólíklegt að við fáum samning sem er svo góður það verði mikið álitamál," segir Steingrímur.















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×