Innlent

Trúnaði létt af öllu sem óskað var eftir

Guðbjartur Hannes­son, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Mynd/GVA
Guðbjartur Hannes­son, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Mynd/GVA

Enginn þingmaður óskaði nokkurn tímann eftir því að trúnaði á tölvupóstsamskiptum Indriða H. Þorlákssonar og Marks Flanagan yrði aflétt.

Þetta segir Guðbjartur Hannes­son, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Þingmenn gátu lesið tölvupóstana, ásamt ýmsum öðrum gögnum er varða Icesave-málið, í lokuðu herbergi í húsakynnum Alþingis gegn heiti um að halda trúnað. Gögnin hafa legið fyrir með þeim hætti frá því í júní. Almenningur hefur haft aðgang að lista yfir trúnaðargögn á vefsvæðinu island.is.

Tölvupóstarnir komu fyrir sjónir almennings í fyrrakvöld á upplýsingasíðunni WikiLeaks. Þar má lesa bréf Indriða, þá ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og fulltrúa í samninganefnd Íslands vegna Icesave, og Marks J. Flanagan, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyris­sjóðs-ins á Íslandi.

Í framhaldinu kröfðust nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn þess, á þingfundi í gær, að trúnaði yrði létt af öllum gögnum.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, kveðst ekki ætla að taka afstöðu til þeirrar kröfu. Í fjárlaganefnd hafi orðið sá sameiginlegi skilningur að almennt yrðu minnisblöð með einhliða frásögnum af fundum og sambærilegir tölvupóstar bundnir trúnaði. Hins vegar hafi hann gengist fyrir því að trúnaði yrði aflétt af öllum þeim plöggum sem óskað hafi verið eftir.

„Við sóttum þá heimild fyrir því og fengum. Slíkum beiðnum var aldrei neitað," segir Guðbjartur.

Spurður hvort samskipti Indriða og Flanagans hafi verið rædd í fjárlaganefnd segir Guðbjartur svo ekki hafa verið. „Enginn tók þau upp þó að þau hafi vitaskuld mátt ræða í nefndinni."- bþs









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×