Innlent

Kynferðisbrotafangar stelast ítrekað á netið

Vel er fylgst með því sem gerist á Litla-Hrauni. Forstjóri Fangelsismálastofnunar setti í gær reglur um misnotkun á aðgengi að interneti.
Vel er fylgst með því sem gerist á Litla-Hrauni. Forstjóri Fangelsismálastofnunar setti í gær reglur um misnotkun á aðgengi að interneti. Myndin er frá Litla-Hrauni.

Fangar á Litla-Hrauni sem ekki mega vera nettengdir í klefum sínum hafa sumir hverjir stundað netviðskipti eftir að hafa látið smygla inn til sín svokölluðum netpungum.

Fréttablaðið hefur upplýsingar um að fólki utan múra hafi brugðið við að sjá fanga með þunga dóma, til að mynda fyrir manndráp, nauðganir, kynferðisbrot og ofbeldisbrot, komna inn á fésbók eða aðrar vefsíður. Nú síðast var fangi, sem afplánar langan dóm fyrir manndráp og nauðgun, gripinn á netinu.

Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins, staðfestir að þetta sé rétt og fangelsisyfirvöldum sé vandi á höndum. Hann setti í gær reglur um að undantekningalaust skuli taka tölvur tímabundið af föngum sem teknir eru með netpunga eða hafa misnotað reglur um aðgengi að interneti.

„Þriðjungur fanganna á Litla-Hrauni er í námi,“ útskýrir Páll. „Í dag er ekki hægt að fá tölvur nema með þessum tengibúnaði. Ef við tækjum allar tölvur af föngum, sem vissulega hefur verið rætt, kæmi það fyrst og fremst niður á þeim föngum sem vilja bæta sig og eru sannarlega að vinna í því.“

Fangelsismálayfirvöld hafa skoðað tæknilegar útfærslur á skermun Litla-Hrauns. Þau hafa verið í sambandi við fyrirtæki sem tekið hefur að sér slík mál víða erlendis, til að mynda í Hollandi.

„En kostnaður við uppsetningu hleypur á tugum milljóna, auk þess sem ekki er víst að það virki eins og því er ætlað að gera,“ segir Páll. „Meðan fjármunir eru af eins skornum skammti hjá ríkisfyrirtækjum og raun ber vitni er þetta ekki forgangsverkefni hjá okkur.“

Páll segir fleiri þætti í þessu samhengi sem huga þurfi vandlega að í fangelsum.

„Þetta má til dæmis ekki bjaga fjarskiptabúnað sem fangaverðir nota sín á milli, hvað þá heldur símkerfið. En það er leitað daglega í fangelsinu og við förum eftir ábendingum sem kunna að berast utan frá.“

Páll segir erfitt að koma í veg fyrir að netpungum sé smyglað inn í fangelsið. Menn eigi að meginreglu til rétt á því að heimsókn til þeirra sé án eftirlits.

Verulega væri hægt að bæta úr þessu í nýju, sérhönnuðu öryggisfangelsi.

jss@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×