Innlent

Grunaður um að nauðga unglingsstúlku ítrekað

Andri Ólafsson skrifar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í dag rúmlega tvítugan karlmann sem grunaður er um að hafa nauðgað 16 ára stúlku. Hann er grunaður um að hafa haldið henni í gíslingu á heimili sínu í tólf tíma, nauðgað og gengið í skrokk á henni. Maðurinn komst í kynni við stúlkuna á Facebook.

Forsaga málsins er sú að stúlkan sem er aðeins sextán ára og maðurinn, sem er á þrítugsaldri höfðu hist á facebook. Þar höfðu þau átt í samskiptum um tíma án þess að hittast nokkurn tíman í persónu.

Á laugardaginn síðasta bauð maðurinn stúlkunni að hitta sig í fyrsta skiptið. Stúlkan þáði boðið og fór heim til hans um kvöldið. Þar ber stúlkan því við að maðurinn hafi margítrekað nauðgað henni,. Hann gekk í skrokk á henni og hélt henni í gíslingu. Að sögn stúlkunnar var hún fangi mannsins alla nóttina og fékk ekki frelsi fyrr en morguninn eftir.

Málið var kært til lögreglu nú í vikunni, fáeinum dögum eftir að atburðurinn átti sér stað.

Heimildir fréttastofu herma að áverkar á líkama stúlkunnar styðji við framburð hennar.

Maðurinn sem grunaður er um að hafa nauðgað stúlkunni var handtekinn nú í morgun og hefur hann verið í skýrslutökum í dag. Ekki verður krafist gæsluvarðhalds yfir honum. Maðurinn er grunaður um nauðgun, frelsissviptingu og líkamsárás. Heimildir fréttastofu herma að maðurinn hafi játað samræði við stúlkuna en staðið í þeirri trú að um samþykki stúlkunnar hefði verið til staðar.

Maðurinn er með meira en 500 vini á facebokk en stór hluti þeirra er ungar stúlkur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×