Erlent

Tegundum í hættu fjölgar

Nefapi á Borneó Nefaparnir á Borneó eru einungis um þúsund talsins.
fréttablaðið/AP
Nefapi á Borneó Nefaparnir á Borneó eru einungis um þúsund talsins. fréttablaðið/AP

Í skógum Panama fannst fyrir tveimur árum sérkennileg frosktegund sem getur flogið. Þessir froskar eru í útrýmingarhættu, rétt eins og þúsundir annarra dýra- og jurtategunda jarðarinnar.

Fjallamúsin í Madagaskar er einnig á lista Alþjóðlega dýraverndunarsambandsins, sem fylgist grannt með stöðu tegundanna. Sömu sögu er að segja um sérstæða eðlutegund á Filippseyjum, sem er gædd þeim hæfileika að geta gengið á vatni.

Í ár kannaði sambandið stöðu 47.677 tegunda, en af þeim reyndist 17.291 tegund vera í útrýmingarhættu, um 36 prósent af heildar­fjöldanum. Meira en fimmta hver spendýrategund, yfir fjórðungur allra skriðdýrategunda og um sjötíu prósent jurtategunda eru á þessum „rauða lista", sem sambandið gefur út árlega.





Froskurinn fleygi Hann er gæddur hæfileika til að láta sig svífa niður á jörðina ofan úr trjátoppunum í Panama.fréttablaðið/AP

Aldrei hafa fleiri tegundir verið á þessum lista, en frá síðasta ári bættust 2.800 tegundir við þær sem fyrir töldust í útrýmingarhættu.

Eina spendýrið sem bættist á listann í ár er Austur-Voalavo-músin, lítið nagdýr sem hefst við í skógi vöxnu fjalllendi Madagaskar. Hún er í hættu vegna skógareyðingar, sem bændur þar stunda grimmt. Froskurinn fljúgandi er sömuleiðis í hættu vegna skógareyðingar í Panama, en vatna­eðlan á Filippseyjum er á listanum vegna þess að hún er veidd, bæði til matar og til nota sem gæludýr.

Meðal dýrategunda sem fyrir voru á listanum eru tígrisdýrin, sem líklega eru ekki nema 3.200 talsins lengur, að undanskildum þeim sem geymd eru í dýragörðum víða um heim.

Á hverju ári færist nokkur fjöldi tegunda af listanum yfir á annan lista, sem er yfir útdauðar dýrategundir.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×