Innlent

Værum berskjaldaðri án Schengen

helgi gunnlaugsson Prófessor við Háskóla Íslands.
helgi gunnlaugsson Prófessor við Háskóla Íslands.

Með aðgangi að alþjóðlegum gagnabönkum í krafti Schengen-aðildar geta yfirvöld nálgast margvíslegar upplýsingar sem gagnast þeim í baráttunni við erlenda glæpahringi.

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í afbrotafræði.

Hann er sama sinnis og Smári Sigurðsson, yfirmaður alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra, sem lýsti skoðun sinni í blaðinu í gær.

Lögreglufélag Vestfjarða og Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, hafa efasemdir um ágæti Schengen-samstarfsins og telja það auðvelda landgöngu fólks sem hingað komi í því augnamiði að fremja glæpi.

Helgi hafnar þeirri kenningu að skipulögð glæpastarfsemi þrífist í skjóli Schengen-aðildar, sem í aðra röndina snýst um vegabréfalausa för fólks innan aðildarríkjanna. Þvert á móti veiti hún möguleika á samstarfi við lögregluembætti annarra ríkja. Aðildin veiti í raun og veru vernd gegn mansali og annarri skipulagðri glæpastarfsemi. Íslendingar væru berskjaldaðri án Schengen.

Helgi bendir jafnframt á að frjálsa förin sé líka ein af grunnstoðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Úrsögn úr Schengen ein og sér myndi því ekki hefta komu fólks til landsins.- bþs



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×