Innlent

Tek hatt minn ofan fyrir dómstólum

Breki Logason skrifar
Hæstiréttur þyngdi í dag dóm yfir föður sem hafði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að misnota barnunga dóttur sína og dæmdi hann í fimm ára fangelsi. Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu segir að um tímamótadóm sé að ræða og segir dómstóla hafa staðist prófið með glans. Sönnunarbyrði í málum sem þessum sé oft erfið en Hæstiréttur hafi tekið á málinu af mikilli fagmennsku.

Bragi segir að dómurinn sé einsdæmi á Íslandi fyri þær sakir að þarna er sakborningur dæmdur fyrir brot gegn kornungu barni sem gat tjáð sig mjög takmarkað munnlega þegar ákært var. Hann segir að óyggjandi læknisfræðileg sönnunargögn hafi ekki legið fyrir en samt sem áður hafi dómari komist að því að að tjáning barnsins sé hafin yfir allan vafa.

„Þetta er mjög fágætt og ekki bara tímamót hér á landi, heldur held ég að það sé óvíða hægt að finna sambærilegan dóm erlendis. Í þessu máli sýna dómstólar og réttarvörslukerfið að það getur tekist á við afskaplega flókin og erfið mál þar sem svo ung börn eiga hlut að máli. Þetta er gert af þvílíkri fagmennsku og ég bara tek hatt minn ofan fyrir þeim," segir Bragi sem þekkir til málsins í gegnum starf sitt.

Stúlkan var einungis tveggja og hálfs árs þegar brotin áttu sér stað en Bragi segir einnig athyglisvert að dómurinn sé þyngdur úr tveimur upp í fimm ár.

„Það er mjög fátítt að refsing sé meira en tvöfölduð. Í þessu tilviki er Hæstiréttur mög öruggur um sekt mannsins og notar refsirammann til hins ítrasta."




Tengdar fréttir

Dómur barnaníðings þyngdur um þrjú ár

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barnungri dóttur hans. Brotin áttu sér stað á tímabilinu september 2007 til nóvember 2008.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×